Freyr Alexandersson: „Í fyrsta sinn á EM“ fór ekkert í taugarnar á mér


Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, er gestur í sjónvarpsþætti 433.is sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 21:30.

Mikið hefur verið rætt um karlalandsliðið undanfarnar vikur en nú er ljóst að við erum á leið í lokakeppni EM í Frakklandi næsta sumar.

Rætt var um að þetta væri í fyrsta sinn sem Ísland kæmist á EM en kvennalandsliðið hefur þó áður komist í lokakeppni.

Þessi umræða hefur farið fyrir brjóstið á sumum en Freyr segir að umræðan sé fullkomlega skiljanleg.

,,Nei ég vona að enginn mógðist við það að það fór ekkert í taugarnar á mér, mér finnst það í rauninni fullkomlega eðlilegt þar sem þetta var í fyrsta sinn sem karlalandslið Íslands í knattspyrnu kemst á lokamót,“ sagði Freyr.

,,Það vita það allir að það er stærsta íþróttagreinin í heiminum, knattspyrna karla. Auðvitað er þetta allt knattspyrna en samt sem áður er kvennaknattspyrna er mun yngri íþrótt en karlaknattspyrna. Þetta er allt í góðu og þeir eiga alla þá athygli skilið sem þeir hafa fengið og munu fá.“

,,Við munum bara njóta góðs af því, svo er það bara okkar að komast á EM í Hollandi og ég veit að fjölmiðlar á Íslandi sýna okkur það mikla virðingu og athygli að þeir munu fylgja okkur eftir í þeirri baráttu sem við förum í þá.“


desktop