Róbert Örn um gagnrýnina: Fæ kannski símtal frá brjáluðum bróður mínum


Róbert Örn Óskarsson, markvörður FH í Pepsi-deildinni, var gestur í sjónvarpsþætti 433.is sem sýndur var á Hringbraut í gær.

Róbert Örn og félagar í FH geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn um næstu helgi er liðið tekur á móti Fjölni.

,,Ég vona að bikarinn fari á loft hérna. Við ætlum að koma hérna á laugardaginn og bæta upp fyrir klúðrið á sunnudaginn, vonandi komum við með titilinn heim,“ sagði Róbert.

,,Við misstum hausinn í fimm mínútur, eftir að við skoruðum markið þá klikkaði eitthvað í 2-3 mínútur og þeir gengu á lagið og það er hættulegt gegn liði eins og Breiðabliki.“

,,Við erum búnir að koma okkur í þægilega stöðu og það er í okkar höndum að klára þetta, þeir eru andandi í hnakkamálið á okkur Blikarnir, það er gott að vita af því.“

,,Það var erfiðara fyrst að taka gagnrýninni en ég er orðinn vanur þessu, þetta hefur verið svona síðan ég byrjaði hérna.“

Róbert hefur þurft að þola töluverða gagnrýni í markinu hjá FH en hann segist vera orðinn vanur því.

,,Þetta fylgir því að vera í þessum pakka, mér finnst auðveldara að díla við þetta en kannski fólkinu í kringum mig. Ég fæ kannski símtal bróður mínum alveg brjáluðum „Hvað voru þeir að segja?“ og ég svara bara að ég væri ekki búinn að sjá þetta.“

,,Maður lærir að vinna með þessu, oft meikar sens það sem er verið að segja og oft meikar það engan sens, maður verður að sigta út hvað er hvað.“


desktop