Arnór Ingvi: Lærdómsríkur tími

,,Það er sirka mánuður síðan að Malmö kom inn í myndina,“ sagði Arnór Ingvi Traustason sem í dag samdi við Malmö í Svíþjóð. Malmö kaupir Arnór Ingva frá Rapíd Vín en hann hafði verið á láni hjá AEK Aþenu síðustu mánuði.

Arnór fór frá Svíþóð fyrir einu og hálfu ári þar sem hann lék með IFK Norköping og þekkir því deildina vel.

,,Ég varð strax mjög spenntur og Malmö kom upp, ég er að koma til baka til Svíþjóðar þar sem ég þekki hlutina vel. Þetta er spennandi.“

,,Malmö er mjög stór klúbbur, ég fór yfir svæðið hjá þeim í dag skoðaði aðstæður, mér leist vel á. Þetta er allt mjög flott og það sem þeir sögðu hljómaði vel.“

Ljóst er að Arnór tók þetta skref með Heimsmeistaramótið í Rússlandi í huga, til þess að komast með þurfa menn að vera að spila. ,,Ef maður hugsar út í það sem er í vændum þá reynir maður að taka það skref sem er ekki mikil áhætta í.“

Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir Arnór sem fór til AEK með miklar væntingar en fékk fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.

,,Þetta hefur verið lærdómsríkur tími á margan hátt, það sem er búið er bara búið núna. Ég horfi fram á við, ég er mættur hingað. Ég er ánægður með að allt sé klárt, ég þarf ekki að horfa til baka og sjá eftir neinu. Núna er það að horfa fram á veginn.“

,,Ég hef lært margt á þessu eina og hálfa ári, ég er mjög þakklátur fyrir þessa reynslu. Þetta var erfitt og allt það en maður lærir mikið á þessu.“

,,Malmö stefnir mjög hátt, þeir vilja berjast um sigur í deildinni á hverju ár og reyna að komast inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.“

Arnór hefur fengið grænt ljós frá Malmö að fara með íslenska landsliðinu til Indónesíu í janúar.

,,Við byrjum æfingar hjá Malmö í janúar og ég hef svo fengið grænt ljós á að fara með landsliðinu til Indónesíu, ég ræddi það við. Ég er laus allra mála hjá AEK, núna er bara að hafa það náðugt yfir jólin og svo byrjar þetta í janúar.“


desktop