Kolbeinn fór í aðra aðgerð sem heppnaðist vel – Fer yfir erfitt ár

Kolbeinn Sigþórsson framherji íslenska landsliðsins og Nantes í Frakklandi hefur átt afar erfitt ár. Þessi magnaði leikmaður hefur tvisvar sinnum farið undir hnífinn á tæpu ári og ekki náð að spila fótbolta í tæpt ár.

Kolbeinn lék síðast 28 ágúst árið 2016 með Nantes gegn Bordeaux en nokkrum dögum síðar var hann lánaður til Galatasaray í Tyrklandi en þar tókst honum aldre að spila.

Hann fór fyrst í aðgerð í september sem heppnaðist ekki vel og eftir endalausa endurhæfingu en litlar framfarar var ákveðið að fara aftur í aðgerð. Sú aðgerð fór fram 22. júní og gekk vel.

,,Ég fór í aðgerð í Svíþjóð á dögunum hjá Jóni Karlssyni og hún gekk vel, hann er afar bjartsýnn á að ég muni ná fullum bata. Það var skafið af innanverðum liðþófa sem var rifinn og svo var einnig skafið af brjóski,“ sagði Kolbeinn þegar 433.is ræddi við hann í gær.

,,Staðan á mér eftir þessa aðgerð er góð og ég finn það sjálfur að ég er allur að koma, sú staðreynd gefur mér góða bjartsýni á framhaldið.“

Þessi öflugi sóknarmaður hefur flakkað á milli lækna og vegna tryggingavandamála fékk Kolbeinn ekki að fara aftur undir hnífinn fyrr en í lok júní.

,,Eftir fyrri aðgerðina í Tyrklandi hef ég farið víða og meðal annars til Barcelona þar sem ég hitti sérfræðinga sem hafa reynt ýmsar leiðir til að forða mér frá því að fara aftur í aðgerð, það dugði því miður ekki til. Það var búið að vara mig mikið við því að fara aftur í aðgerð, menn töldu það of tvísýnt að ég yrði góður eftir slíkt. Ég tók þá ákvörðun að taka þann slag í nokkra mánuði og reyna að gefa þessu tíma og byggja allt upp frá grunni, það er aftur á móti of mikil skemmd í hnénu og það var erfitt að fá það betra.“

,,Ég bólgnaði bara upp við minnstu æfingar sem varð til þess að allir aðilar voru sammála um að ég þyrfti að fara í aðra aðgerð. Eftir að sú ákvörðun var tekin leið hins vegar langur tími vegna trygginga en það var flókið ferli að fá það í gegn og ég var í biðstöðu í mjög langan tíma. Græna ljósið kom svo loksins í lok júní.“

Tæpt ár er síðan Kolbeinn æfði og spilaði fótbolta síðast, er hann á leið aftur á völlinn?

,,Ég er mjög bjartsýnn á að þetta fari rétta leið og eins og staðan er í dag lítur þetta mjög vel út með framhaldið,“ sagði Kolbeinn en er mætt dagsetning á það hvenær hann má sparka í bolta aftur?

,,Það er mjög erfitt að gefa upp nákvæma dagsetningu en skurðlæknirinn talaði um að eftir einn og hálfan til tvo mánuði ætti ég að geta byrjað að æfa fótbolta á nýjan leik, ég mun samt sem áður fara mér hægt og meta stöðuna eftir því hversu vel endurhæfingin gengur.“

Framherjinn er í eigu franska liðsins Nantes og þar á hann þrjú ár eftir af samningi sínum, hvernig stendur hann gagnvart félaginu?

,,Staðan gagnvart Nantes er enn óljós, það er best fyrir alla aðila að ég nái fullri heilsu og ég sé klár að spila fótbolta sem fyrst. Það kemur svo í ljós hvar ég verði þegar ég er klár í slaginn á nýjan leik,“ sagði Kolbeinn en hann hefur ekkert rætt við Nantes um að rifta samningi sínum.

Eins og eðlilegt er þá hefur verið þetta ár verið afar erfitt fyrir Kolbein, hann var einn besti leikmaður Íslands á EM og hann fékk félagaskipti til Galatasaray í Tyrklandi og var bjartsýnn á að allt væri að fara á flug. Honum var hins vegar skellt niður á jörðina og hefur ekki spilað fótbolta síðan.

,,Það er búið að vera gríðarlega erfitt að vera svona lengi frá og það hefur án nokkurs vafa tekið á, erfiðast í þessu öllu var biðin og óvissan um framtíðina. Svona mál reynir alltaf á þolinmæðina, þetta er klárlega erfiðasta tímabilið sem ég hef gengið í gegnum á mínum fótboltaferli,“ sagði Kolbeinn að lokum við 433.is.


desktop