Björn Bergmann seldur til Rostov – Liðsfélagi Sverris

Björn Bergmann Sigurðarson hefur verið seldur frá Molde til FC Rostov í Rússlandi.

Norska félagið staðfesti þetta nú rétta í þessu.

Björn átti frábært tímabil með Molde og voru mörg félög sem höfðu áhuga á honum.

Björn gerir þriggja og hálfs árs samning við Rostov með mögueika á einu auka ári.

Rostov virðist hrífast að Íslendingum því félagið festi kaup á Sverri Inga Ingasyni í sumar.

Sverrir hefur stimplað sig inn sem lykilmaður hjá félaginu. Líklegt er að báðir leikmenn verði í hópi íslenska landsliðsins á HM í sumar.

,,Mér hefur liðið vel í Molde og kunnað vel við alla hjá félaginu, þetta eru vinir mínir í dag,“
sagði Björn við heimasíðu Molde.

,,Það hefur verið gaman að æfa undir stjórn Ole Gunnar, þetta er tækifæri sem ég varð að taka til að spila í betri deild.“

Þar mun einn leikur Íslands fara fram á nýjum heimavelli félagsins en um verður að ræða síðasta leikinn í riðlinum gegn Króatíu.

Björn er 26 ára gamall framherji en hann hefur leikið með Lilleström, Wolves, Molde og FCK í atvinnumennsku. Hann lék með ÍA á Íslandi.

,,Björn er frábær drengur að vinna með, hann er góður liðsfélagi innan og utan vallar. Við þökkum honum fyrir allt hjá Molde og ég óska honum góðs gengis í Rússlandi og vonast til að sjá hann á HM með Íslandi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær þjálfari Molde.


desktop