Björn Einars: 17-18 atkvæði sem gufuðu upp

Björn Einarsson þurfti að sætta sig við tap í formannskjöri KSÍ um helgina en hann beið lægri hlut gegn Guðna Bergssyni.

Björn ræddi við Hjört Hjartarson í Akraborginni í dag á X-inu og fjallaði þar um tap helgarinnar.

Björn bjóst við sigri í kosningum helgarinnar og segir hann að tapið hafi komið sér mikið á óvart.

,,Þetta eru mikil vonbrigði og þetta kom á óvart líka. Ég bjóst við að þetta myndi ganga eftir,“ sagði Björn.

,,Ég fann meðbyr. Ég fann skýran vilja til að fara með KSÍ í gegnum ákveðnar breytingar, öflugri stjórnhætti og stjórnsýsluhætti. Ég bjóst við að þetta myndi enda öðruvísi.“

,,Fyrir það fyrsta þá held ég að þetta hafi verið mjög hollt fyrir KSÍ, þarna fengu aðildafélögin mikið samtal við okkur báða, mig og Guðna. Ég held að þetta sé mikið til að byggja á.“

,,Þetta opnaði ákveðin atriði eins og með ferðakostnaðinn. Það er mikilvægt að Guðni taki það mál áfram og standi við stóru orðin gagnvart grasrótinni að taka á ferðakostnaðinum.“

Björn ætlaði ekki að taka við launum sem formaður KSÍ og er hann ekki frá því að það hafi komið í bakið á sér.

,,Já það var líka rekinn skýr hræðsluáróður hvað það varðar allan tímann og ég held að það sé stórt atriði og mikill grunnur í að einmitt að breyta stjórnsýslu og stjórnarháttum innan KSÍ.“

,,Ég var að tala um að við myndum taka núverandi fyrirkomulag úr sambandi, þessa starfandi stjórnarformennsku og fara í þessa hefðbundnu sem þekkist á íslenskum markaði.“

,,Það var rekinn mjög stífur hræðsluáróður allan tímann hvað þetta varðar, af hinu framboðinu, það var alveg ljóst.“

Minni liðin á Íslandi kusu flest öll að styðja við bakið á Guðna en Björn hefur engar útskýringar á því.

,,Ég ítrekaði það allan tímann að ég væri fyrir alla og mín sterka og öfluga grasrótarreynsla hún ætti að vera næg staðfesting til allra liða að ég myndi standa með öllum liðum.“

,,Það kom fram í öllum mínum kynningum að ég væri fyrir alla þannig að það er erfitt að svara en ég bendi á að í formannskjörinu sjálfu eru greidd 149 atkvæði, í kjörinu til aðalstjórnar held ég að þau séu um 130 þannig það gufuðu upp 17-18 atkvæði á milli dagskráliða á þinginu sjálfu sem er athyglisvert.“


desktop