Brynjar og Valtýr Björn hætta í stjórn Fram – Félagið ekki á góðum stað

Fram.

Brynjar Jóhannesson formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fram hefur sagt upp störfum og einnig Valtýr Björn Valtýsson sem sat í stjórn knattspyrnudeildar.

Sögur hafa verið á kreiki um að deilur hafi verið við aðalstjórn félagsins en Brynjar gaf lítið fyrir það.

Hann segir að Fram sé ekki á góðum stað í fótboltanum og að það kalli á mikla vinnu að snúa við taflinu. Þann tíma segist Brynjar ekki hafa.

,,Það er mikið að gera í vinnu hjá mér, maður hefur ekki haft þann tíma sem þarf í þetta,“ sagði Brynjar.

,,Félagið er í þeirri stöðu að það þarf mikinn tíma ef það á að koma þessu á einhvern kjöl aftur. Ég á ekki þann tíma, þetta er brjáluð vinna,“ sagði Brynjar en voru deilur við aðalstjórn félagsins?

,,Ekki þannig, þó að menn séu kannski ekki alveg að ganga í takt. Maður hefur komið tvisvar inn í þetta á síðustu fjórum árum, maður hefur verið vældur inn í þetta. Þetta er of mikil vinna.“

Fram leikur í 1. deild karla og hefur gert síðustu ár, Brynjar segir félagið ekki á góðum stað.

,,Valtýr Björn hætti nokkrum dögum á eftir mér, við vorum tveir mest að hjakkast í þessum málum. Félagið er ekki á góðum stað, við getum lítið í fótbolta. Áttunda og níunda sæti í 1. deildinni síðustu tvö ár. Það er ekki boðlegt, það þarf mikið átak ef það á að gera eitthvað.“


desktop