Ef ný ríkisstjórn væri knattspyrnulið – Bjarni Ben fyrirliði

Mynd: Sigtryggur Ari

Ný ríkisstjórn tók við völdum í gær við hátíðlega athöfn á Bessasstöðum.

Það er Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks sem stýrir stjórninni en með honum eru þeir Benedikt Jóhannesson hjá Viðreisn og Óttar Proppe hjá Bjartri Framtíð.

Nýir ráðherrar eru ellefu stykki og því er hægt að stilla upp góðu knattspyrnuliði úr ráðherrum.

Það var einmitt það sem Freyr Rögnvaldsson blaðamaður á DV gerði, Freyr stillti upp öflugu liði úr vaskri sveit ráðherra.

Liðið má sjá hér að neðan en Freyr stiltti upp klasísku 4-4-2 kerfi en hann gaf 433.is góðfúslegt leyfi til að birta pistil sinn.

rikiststjorn

Pistill Freys:
Ellefu ráðherrar þýðir að ríkisstjórnin nær í lið í fótbolta. Hvernig myndi því verða stillt upp?

Mín tillaga og rökstuðningur er eftirfarandi, fyrir liðsuppstillinguna 4-4-2:

Markvörður: Óttarr Proppé. Ég veit ekkert um hæfileika Óttarrs í knattspyrnu en hann gengur oft um með sixpensarar eins og markverðirnir í gamla daga.

Miðverðir: Bjarni Benediktsson (C). Muni ég rétt spilaði Bjarni einmitt miðvörð með Störnunni og þótti harður í horn að taka. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þorgerður spilaði línu í handboltanum í gamla daga og línumenn eru eins og allir vita bestu varnarmennirnir. Þar að auki er hún hávaxin og mun vinna ótal skallabolta.

Bakverðir: Kristján Þór Júlíusson. Kristján er hlaupalegur og mun ábyggilega geta farið fram og aftur kantinn eins og rennihurð. Sigríður Ásthildur Andersen. Sigríður getur án vafa komið með baneitraða krossa inn í teiginn og skapað mikinn usla í vörnum andstæðinganna.

Miðjumenn: Benedikt Jóhannesson. Benedikt verður djúpur á miðjunni og bindur saman miðju og vörn. Hirðir upp allt sem dettur laust fyrir framan vörnina. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir. Skapandi tía hafi ég nokkurn tíma séð eina. Unir sér klárlega í holunni fyrir aftan sóknina og matar hana á eitruðum sendingum. Jón Gunnarsson. Jón er vinnuþjarkur á miðjunni og vinnur ábygglega helling af þessari óeigingjörnu vinnu sem ekki er endilega tekið eftir. Kannski er hann líka góður í innköstunum. Þorsteinn Viglundsson. Þorsteinn er svona hefðbundinn íslenskur miðjumaður líka, vinnusamur með hæfileika, sókndjarfur fram á við en getur líka varist.

Framherjar: Björt Ólafsdóttir. Björt er alveg áreiðanlega teknískur og marksækinn framherji, með auga fyrir markinu. Grjóthörð þar að auki. Guðlaugur Þór Þórðarson. Framherji af gamla skólanum. Lætur vörnina finna mikið fyrir sér og skapar alls konar vesen og hættu.
Nú þið.


desktop