Freyr: Fyrst og fremst þakklátur fyrir umfjöllunina og stuðninginn

Bjarni Helgason skrifar frá Tilburg:

Íslenska liðið er mætt til Tilburg þar sem liðið mun leika sinn fyrsta leik á EM gegn Frökkum á morgun.

Ísland leikur í riðli með Frakklandi, Sviss og Austurríki en Frakkar eru sterkasta liðið í riðlinum, fyrirfram.

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska landsliðsins var mættur á blaðamannafund á Willem II Stadion í dag ásamt þeim Söru Björk Gunnarsdóttur og Guðbjörgu Gunnarsdóttur.

Íslenska liðið hefur fengið gríðarlega mikla athygli að undanförnu og er stuðningurinn við liðið mikill og er þjálfari liðsins þakklátur fyrir það.

„Við erum gríðarlega þakklát fyrir allan þann stuðning og þá umfjöllun sem við höfum fengið og ég gæti ekki verið sáttari með það. Núna snýst þetta hins vegar bara um fótbolta hjá okkur og við munum einbeita okkur alfarið að því á næsta sólahringnum.“


desktop