Grófu ofbeldi hótað á varamannabekk Gróttu

Ingólfur er lengst til hægri á myndinni og Sigurður lengst til hægri. Myndir: Heimasíða Gróttu

Sigurður Brynjólfsson aðstoðarþjálfari Gróttu hótaði Ingólfi Sigurðssyni þá leikmanni félagsins að svæfa hann á dögunum eftir að Ingólfur hafði staðið í hótunum við hann. Afar mörg vitni voru að samskiptum þeirra sem áttu sér stað á varamannabekknum í leik Gróttu og Leiknis F. í 1. deild karla.

Forsaga málsins er sú að Ingólfi var skipt útaf í síðari hálfleik og brást afar illa við þeirri skiptingu. Ingólfur reif sig í burtu frá Þórhalli Dan Jóhannssyni þjálfara liðsins sem reyndi að róa hann.

Heimildarmaður 433.is segir að rifrildin hafi verið harkaleg, menn hafi oft rifist á bekknum í fótbolta áður en aldrei hafi menn heyrt svona hótanir. Heimildarmaðurinn segir einnig að þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem Ingólfur var ósáttur við að vera skipt af velli í sumar.

Ingólfur fór síðan að varamannabekk Gróttu og grýtti þar brúsa í jörðina, við þetta var þjálfarateymi Gróttu ekki sátt. Sigurður skipaði þá Ingólfi að fara inn í klefa með eða án sinnar aðstoðar samkvæmt Ingólfi.

Ingólfur hótaði því þá að skalla Sigurð sem brást illa við og hótaði Ingólfi að svæfa hann og lemja.

Ingólfur lét ekki segjast og sat á bekknum áfram en Sigurður hélt áfram að lesa yfir honum, báðir staðfesta að rifrildin hafi verið harkaleg og Ingólfur staðfestir þessa frásögn.

,,Það var rifist á bekknum, þetta var old school rifrildi. Hann kom trylltur a bekkin eins og sýnt var frá, menn hafa rifist á bekknum áður og þetta var ekkert meira en það. Þetta var auðvitað smá fíaskó en hann kom trylltur þarna og kannski voru sagðir hlutir sem menn segja ekki venjulega. Menn hafa séð og orðið vitni af verri hlutum en þetta, ég óska bara Ingólfi góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur næst,“ sagði Sigurður í samtali við 433.is um málið.

Ingólfur segir að sér hafi brugðið yfir pistlinum sem hann fékk frá Sigurði. ,,Ég iðrast því sem ég gerði og það átti ekki rétt á sér. Ég get hins vegar staðfest þá frásögn að hann hótaði mér ítrekað ofbeldi,“ sagði Ingólfur um málið við 433.is.

Meira:
Smelltu hér til að sjá atvikið þegar Ingólfi svar skipt af velli

Um hótun sína í garð Sigurðar segir Ingólfur að orð sín hafi verið algjörlega merkingarlaus, í reiði sinni hafi hann misst þau út úr sér og að hann myndi aldrei beita nokkurn mann líkamlegu ofbeldi.

Eftir leik kveðst Ingólfur hafa beðið alla afsökunar á sinni hegðun.

Ingólfur lék þarna sinn síðasta leik fyrir Gróttu en félagið ákvað að láta hann fara eftir atvikið, Sigurður er enn í starfi en fundað var um málið hjá stjórn Gróttu og sú ákvörðun tekin að láta Ingólf fara.

Grótta situr í fallsæti 1. deildar karla og er útlið ekki bjart yfir Seltjarnarnesinu.


desktop