Ítarlegt viðtal við Atla Eðvaldsson – Fréttamenn sniðgengu matarboð

Atli Eðvaldsson er goðsögn í íslensku íþróttalífi, hann átti frábæran feril sem leikmaður hér heima og úti í hinum stóra heimi. Atli hefur frá því að ferli hans í fótbolta lauk verið í þjálfun og í dag starfar hann sem slíkur hjá Kristianstad FC í Svíþjóð. Liðið leikur í þriðju efstu deild en Atli tók við því á tímabilinu sem var að ljúka, árangurinn var góður og allt stefnir í að Atli verði þar áfram. Atli kemur af mikilli knattspyrnuætt, faðir hans, Evald Mikson var landsliðsmarkvörður hjá Eistlandi. Bróðir hans, Jóhannes Eðvaldsson, var landsliðsmaður og lék lengi vel erlendis. Börnin hans hafa síðan gert það gott í fótbolta; Sif hefur átt farsælan feril með landsliðinu og í atvinnumennsku og synir hans Emil og Egill hafa gert það gott hér heima.

„Ég tók við Kristianstad, karlaliðinu þar í bæ. Ég var í heimsókn hjá dóttur minni, Sif, þegar vinur minn sem var með mér á þjálfaranámskeiði hringdi. Hann er frá Tyrklandi en ólst upp í Þýskalandi að stórum hluta. Hann hringdi í mig og spurði hvar í Danmörku ég væri, ég sagði honum að ég væri mættur til Svíþjóðar í heimsókn til dóttur minnar. Hann spurði hvar í Svíþjóð ég væri, ég sagði honum að ég væri í Kristianstad og hann sagðist vera þar líka. Þá var verið að gera hann að yfirmanni knattspyrnumála þar. Þá var hann með handboltastelpu sem var í liðinu hjá Kristianstad og kynntist í gegnum það forseta félagsins. Við hittumst og hann stýrði þessu öllu saman, síðan gerðist það að þeir létu þjálfarann fara. Ég var á staðnum og fékk starfið og það gekk svona líka vel. Við vorum í fallsæti þegar ég tók við, við fengum 16 stig í sjö leikjum. Fengum flest stig í deildinni á þeim tíma og enduðum í fjórða sæti. Nú er verið að ræða um framhaldið. Það eru miklar líkur á því að það verði klárað, hann vill halda mér í starfi,“ sagði Atli þegar blaðamaður 433.is settist niður með honum í Kringlunni í vikunni. Atli verður hér á landi næstu vikur áður en hann heldur aftur til Svíþjóðar.

Í samstarf með liði sem elur upp stjörnur
Atli var að koma úr stuttri ferð til Argentínu. Þar voru hann og yfirmaður knattspyrnumála hjá Kristianstad að hitta forráðamenn San Jorge, félags sem hefur getið sér gott orð í „framleiðslu“ frábærra knattspyrnumanna. ,,Við fórum til Argentínu en þar í landi er lið í fjórðu deild sem heitir, San Jorge. Það er einn af fjárhagslega sterkustu klúbbunum þar í landi, þrátt fyrir að vera í 4. deild. Hugmyndafræði þeirra er að vera með unga og efnilega leikmenn sem komast ekki upp hjá River Plate og Boca Juniors, þaðan eru þeir oft seldir til Evrópu. Þeir vilja í samstarf með okkur, lána okkur leikmenn og ef þeir eru síðan seldir þá fáum við hluta af kaupverðinu. Ég fór ásamt yfirmanni knattspyrnumála til Argentínu. Við fórum að kíkja á leikmenn og ef allt gengur eftir munu fimm leikmenn frá þessu félagi spila með Kristianstad á næsta ári. Þetta er mjög spennandi verkefni, San Jorge borgar allan launakostnað og allt í kringum leikmanninn. Þetta eru leikmenn sem gætu spilað í úrvalsdeild í Svíþjóð, þeir gætu farið í efstu deildir í Evrópu. Þarna komu við leikmenn eins og Gabriel Batistuta, Carlos Tevez og Messi var þarna líka. Þetta er mjög spennandi. Þetta er stökkpallur, þetta félag er mjög vel stætt. Þeir hafa aldrei einbeitt sér að því að spila eitthvað ofar, þarna kemur þessi hugmynd að samstarfi við okkur.“

Hugmyndirnar henta vel í Svíþjóð
Á Íslandi var oft talað um gamaldags hugmyndafræði sem Atli hefði en í dag er sú hugmyndafræði að hans mati að slá í gegn. Þar á stærstan þátt koma Lars Lagerbäck til landsins sem hefur sýnt íslenskum knattspyrnumönnum að endurteknar æfingar skila sér í árangri. Atli þjálfaði Aftureldingu síðast hér á landi árið 2014 en var rekinn úr starfi og hélt til Danmerkur.

„Ég var í Danmörku, ég var að þjálfa í öllum flokkum hjá liði í 6. deild. Ég var ekki aðalþjálfari, í dag er ég aðalþjálfari. Hugmyndafræði mín passar vel inn í sænskan fótbolta, það er 4-4-2 og hentar mér mjög vel. Við byrjuðum vel, við fengum ekki mark á okkur í fyrstu þremur leikjunum. Liðið var búið að fá á sig mikið af mörkum, við náðum að laga varnarleikinn. Við náðum að bæta sóknarleikinn, við urðum bara betri og betri. Ég var með svipaðan stíl og ég hef alltaf notað, ég var með ungan leikmann frá Argentínu, hann hafði spilað 38 mínútur á tímabilinu. Fyrirsögnin hafði verið að hann hefði spilað 38 mínútum of mikið. Þegar ég tók við þá setti ég hann inn í liðið og hann varð einn af okkar bestu mönnum. Þessi sænski stíll, eins og Heimir Hallgrímsson er að vinna með, það hentar mér vel. Ég henta sænskum fótbolta út af því. Því eldri sem maður verður, þeim mun meira veit maður. Ég held að maður verði betri þjálfari með árunum.“

,,Ég var með U21 árs landsliðið hér á sínum tíma, þá spiluðum við fastmótað 4-4-2 kerfi. Ég held að það sé ekki ósvipað og landsliðið er að gera í dag. Heimir Hallgrímsson sagði að ef hann hefði strax tekið einn við landsliðinu þá hefði hann farið í „ungir á móti gömlum“. Það er einmitt þessi munur, það var svo mikil gæfa að Lars Lagerbäck kom. Hann er að búa til umhverfi sem leikmenn passa inn í, eftir því er farið. Þar breytti hann öllu, hann breytti öllu frá sambandinu og út í alla þjóðina.“

,,Það var mikið af ungum á móti gömlum, ég var með keilur og færslur. Þetta þótti alveg rosalega leiðinlegt, núna er þetta uppi á pallborðinu eftir að Lagerbäck kom hingað. Ég var að taka UEFA Pro Licence í Þýskalandi og þar var Christian Ziege og hann fór að segja mér sögur frá AC Milan af Paolo Maldini þar sem þjálfarinn var að taka hann og leiða hann um völlinn og segja honum að hann stæði vitlaust. Maldini var einn besti varnarmaður í heimi en þjálfarinn vildi sýna honum hver væri með völdin. Ziege sagði mér að ef hann myndi gera þetta í Þýskalandi þá myndi fólk halda að hann væri ekki í lagi, í dag er þetta hins vegar orðið eðlilegt – þessi breyting eins og Lars gerði, að endurtaka alla hluti. Því oftar sem þú gerir hlutina, því betri verður þú. Þegar þú gerir hlutina svona oft þá hættirðu að gera þá rangt, það er íslenska landsliðið í dag.“

,,Þetta var það sem þurfti, það var eins árið 1984 þegar Tony Knapp kom hingað. Þegar þessir erlendu þjálfarar koma, þá breytist allt í íslenska fótboltanum. Þá koma inn hugmyndir og Ísland fer á kortið, þjálfarar koma og fara en við lærum af þeim. Reynslan í því að vera á stórmóti kemur með Lars. Heimir tekur svo við keflinu og er að gera það ótrúlega.“

Fréttamenn sniðgengu matarboð
Atli þjálfaði A-landslið karla frá 1999 til ársins 2003. Gengið var á köflum með ágætum en samband Atla við fréttamenn hefði getað verið betra. Atli reyndi að laga það með matarboðum fyrir fréttamenn þar sem hann ætlaði að útskýra hvernig leikirnir yrðu spilaði. Það gekk vel til að byrja með en svo hættu menn að mæta. „Ég tók upp á því að bjóða fréttamönnum í mat daginn fyrir leik, þeim var öllum boðið fyrir leik gegn Möltu og allir mættu. Svo var ég með töfluna og fór yfir fundinn sem ég færi með fyrir leikinn, ég teiknaði upp og blaðamenn komu með sínar spurningar. Ég leysti það þegar þeir spurðu af hverju ég spilaði ekki svona, ég var með mínar hugmyndir. Einn blaðamaður, sem var á DV, skrifaði um fundinn með mér og sagði að allt hefði gengið upp sem ég hefði sagt. Svo voru Svíar í næsta leik og þá var nákvæmlega eins boð, daginn fyrir leik. Ég stóð í matsalnum og enginn mætti, þá var hringt og þeir sögðu að það hefði ekki neina þýðingu að mæta. Liðin mín myndu alltaf spila eins, það var Malta í fyrsta leik og svo Svíþjóð. Við unnum þá 2-1, sænsku blaðamennirnir höfðu frétt af þessu og reyndu að mæta en ég vildi það ekki. Ég vildi bara að fréttamenn myndu vita hvernig við ætluðum að spila, það mætti enginn og þá lögðum við þetta niður. Það var stórmerkilegt að enginn skyldi mæta, þetta féll því niður.“

Knattspyrnumenn stórstjörnur í dag
Atli segir breytingu hafa orðið á því hvernig knattspyrnumenn hugsa um sig, áður fyrr sneri stór hluti af landsliðsverkefnum að því að koma sér á pöbbinn eftir leikinn, en í dag hugsa leikmenn öðruvísi. Atli segir aðstæður hafa breyst og að í dag séu knattspyrnumenn stórstjörnur. „Þegar ég var ungur þá söfnuðum við leikaramyndum, svo á unglingsárunum voru þetta rokkstjörnur, í dag eru þetta knattspyrnumenn sem allir líta upp til. Í dag er þjálfunarfræðin svo mikil, fjölmiðlar er orðið svo stórt dæmi. Íslenskir landsliðsmenn voru ekki mjög þekktir, í dag þekkja allir Íslendingar alla leikmenn í Pepsi-deildinni. Þetta er mikil breyting, þeir geta ekki leyft sér það sem áður tíðkaðist, keppnin er orðin það mikil. Við erum með 70–80 leikmenn sem eru erlendis í atvinnumennsku, breiddin er orðin svo mikil. Á mínum tíma vorum við kannski fimm í atvinnumennsku, blaðamenn voru með í rútunum, þetta voru meira skemmtiferðir. Menn voru búnir að panta sumarfríið sitt daginn eftir leik en kannski komumst við áfram, menn eru meðvitaðri og umhverfið er miklu sterkara. Aðstæður á Íslandi eru í heimsklassa, miklu betri en í Svíþjóð og Danmörku.“

,,Eftir leik var oft farið á pöbbinn, þegar ég var leikmaður og svo sem þjálfari. Það var búið að skipuleggja fögnuði oft áður en leikurinn hófst, þetta er ekki hlutur sem bara einn þjálfari getur tekið á. Þetta kemur með karakterum, það verða að vera leiðtogar í klefanum sem eru það sterkir að þeir taka alla með sér. Þarna getur þjálfarinn ekkert gert, þjálfarinn veit svona hluti síðastur. Þetta er eins með framhjáhald, makinn veit það síðastur. Það var skortur á sterkum karakterum, núna höfum við marga mjög sterka karaktera. Sumar af stórstjörnum okkar smakka það ekki, það er einstakt og frábært. Menn eru meðvitaðri um allt, þeir gera grein sér fyrir því að þeir eru fulltrúar íslenskrar knattspyrnu. Þeir verða að vera skynsamir.“

Kom aldrei við lóð
Breyttar aðstæður eru í fótboltanum í dag, Atli lék margar stöður sem leikmaður og þá voru menn ekki meðvitaðir um þjálfun. Þannig má nefna að Atli kom aldrei við lóð í lyftingasal sem leikmaður. „Ég fór aldrei inn í lyftingasal, ég tók aldrei í lóð. Maður hljóp bara það sem maður átti að hlaupa, næringin var í lagi hjá mér. Ég gerði það mjög vel, það eru ekki margir sem æfðu meira en ég. Ég tognaði aldrei eða sleit nein liðbönd, ég var klár í álag. Ég hefði viljað æfa í umhverfi eins og er í dag, ég hefði ekki spilað sem framherji í Þýskalandi og miðvörður í landsliðinu. Ef Alfreð kæmi í landsleik í dag eftir þrennuna í Þýskalandi og yrði settur í miðvörðinn, menn myndu segja eitthvað. Ég gerði þetta, af því að það vantaði eitthvað.“


desktop