Íþróttaanáll – Álitsgjafar gera upp árið

Árið er senn á enda og í íþróttaheiminum hefur það verið afar fróðlegt. Sérstaklega hér á Íslandi þar sem mörg mögnuð afrek áttu sér stað, þar má nefna það þegar karlalandsliðið í knattspyrnu tryggði sig inn á Heimsmeistaramótið í fyrsta sinn. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vann hug og hjörtu þjóðarinnar með frammistöðu sinni á meðal atvinnukylfinga í Bandaríkjunum.

Kvennalandsliðið í fótbolta olli vonbrigðum á Evrópumótinu í Hollandi en kom síðan til baka með góðum spretti í undankeppni HM. Aníta Hinriksdóttir átti gott ár í hlaupum og Helgi Sveinsson gerði það gott í spjótkasti fatlaðra, svo eitthvað sé nefnt.

DV leitaði til álitsgjafa sem gera upp helstu afrek innanlands og erlendis á þessu íþróttaári.

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson – íþróttafréttamaður á RÚV:

Innlent:
Við Íslendingar eigum orðið svo flott íþróttafólk að það er úr mörgu að velja. Aníta Hinriksdóttir vann brons á EM innanhúss í frjálsum íþróttum í 800 m hlaupi á árinu, Helgi Sveinsson setti heimsmet í sínum fötlunarflokki í spjótkasti, kraftlyftingafólkið okkar, Júlían Jóhannsson og Fanney Hauks unnu glæsta sigra, Ólafía Þórunn stóð sig gríðarlega vel á stóra sviðinu í golfinu og svona mætti lengi áfram telja. En í mínum huga er stærsta íslenska íþróttaafrek ársins það að íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafi tryggt sér sæti í lokakeppni HM í fótbolta. Það er risastórt afrek.

Erlent:
Ég ætla að leyfa mér að segja sigur Svisslendingsins Rogers Federer á Wimbledon-risamótinu í tennis. Sett í samhengi finnst mér það allavega eitt af stærstu íþróttaafrekum ársins. Eftir að hafa verið bestur í mörg ár voru menn eiginlega búnir að afskrifa Federer fyrir þetta ár, enda hafði hann ekki unnið risamót síðan 2012. En þá mætti kappinn bara og vann bæði Opna ástralska og Wimbledon-mótið. Hann hefur unnið Wimbledon-mótið oftast allra í einliðaleik karla, eða átta sinnum, og hefur unnið flest risamót í tennis í sögunni, 19 talsins. Ótrúlegur íþróttamaður.

Stefán Árni Pálsson – blaðamaður á Fréttablaðinu:

Innlent:
Að mínu mati kemur aðeins eitt til greina og það er árangur karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu. Það að tryggja sig á lokamót HM í fyrsta sinn í sögunni er ótrúlegt afrek. Og að gera það með því að vinna þennan sterka riðil gerir afrekið enn ótrúlegra. Að komast á HM er ótrúlega erfitt og ég mun kannski aldrei aftur sjá íslenskt karlalandslið á Heimsmeistaramóti í knattspyrnu.

Erlent:
Sigur New England Patriots á Atlanta Falcons í Superbowl í byrjun ársins. Liðið lenti 28-3 undir og vann að lokum 34-28 í einhverjum ótrúlegasta íþróttaleik sögunnar. Minnti óneitanlega á endurkomu Liverpool gegn AC Milan í Istanbúl um hér um árið.

Benedikt Bóas Hinriksson – blaðamaður á Fréttablaðinu:

Innlent:
Það er Ísland á HM, ekki spurning. Að enda sem sigurvegarar í riðlinum er eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef orðið vitni að. Að sitja bara rólegur yfir umspilsleikjunum, horfa á HM-dráttinn og fleira og fleira. Þetta er bara afrek sem heldur áfram að gefa.

Erlent:
Sigur New England Patriots í NFL. Þetta er einhver magnaðasti íþróttaleikur sem ég man eftir. Toppar eiginlega endurkomu Liverpool árið 2005. Tilþrif Julian Edelman, þegar hann greip boltann í fjórða leikhluta munu lifa um aldir og ævi. Ég vissi ekki að ég hefði svona sterkar taugar til New England Patriots, en guð minn góður hvað var ljúft að mæta of seint til vinnu þennan mánudag. Hver elskar ekki góðar endurkomur?

Magnús Már Einarsson – ritstjóri Fótbolta.net

Innlent:
Það að Ísland hafi tryggt sér sæti á HM í fótbolta í fyrsta skipti í sögunni er stórkostlegt afrek. Ísland var eitt af níu liðum sem vann sinn riðil í undankeppninni í Evrópu og það er ótrúlegt. Heimsbyggðin fylgdist með ævintýrinu í haust og öll augu verða á Íslandi í Rússlandi næsta sumar.

Erlent:
Af Íslendingum erlendis þá er ekki hægt annað en að nefna árangurinn hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur í golfinu. Frábær árangur og gaman að sjá hana á stóra sviðinu. Hún er líka bara rétt að byrja.

Jóhann Laxdal – leikmaður Stjörnunnar í fótbolta

Innlent:
Það kemur ekkert annað til greina en þegar Siggi Dúlla og vinir komust á Heimsmeistaramótið, knattspyrnuáhugafólk á Íslandi hefur það gott og þeim finnst ekki leiðinlegt að venjast því að vera í svona partíi. Við munum síðar meir horfa til baka og átta okkur á því hversu stórt afrek það var að komast á HM.

Erlent:
Real Madrid tók virkilega gott ár í fótboltanum erlendis , þar sópaði liðið að sér titlum og Ziedine Zidane, þjálfari liðsins, var aðalmaðurinn. Endurkoma New England Patriots í úrslitaleiknum, Super Bowl, var einnig rosaleg. Það var magnað að fylgjast með því.

Þorkell Máni Pétursson – útvarpsmaður á X977

Innlent:
Strákarnir á HM. Er líklega stærsta afrek í sögu íslenskra íþrótta og verður seint toppað. Síðan verður að nefna sigur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta á Þjóðverjum sem var fyrsta tap Þjóðverja í 30 ár á heimavelli.

Erlent:
Þar stendur upp úr sigur Manchester United í Evrópudeildinni, að fá stórlið til að spila eins og lítilmagninn gegn unglingaliði frá Hollandi er stórkostlegt afrek. Helst í ljósi þess að í þessum leik dó líklegast síðasta gildi United frá tíma Sir Alex Ferguson.

Kjartan Atli Kjartansson – stjórnandi Körfuboltakvölds

Innlent:
Afrekið hérlendis er þegar íslenska landsliðið komst á HM í knattspyrnu. Ísland er auðvitað langfámennasta þjóðin til að komast á HM og að vinna riðilinn var stórkostlegt. Þetta er risaafrek, eitt það stærsta í íþróttasögu þjóðarinnar, landsliðið verður nú á stærsta sviði heims næsta sumar.

Erlent:
Slóvenar skrifuðu söguna þegar þeir urðu Evrópumeistarar í körfubolta. Þessi litla þjóð náði ótrúlegum árangri á mótinu, níu sigurleikir í röð. Goran Dragic fór á kostum í mótinu, en sat samt á bekknum á ögurstundu, eitthvað sem maður sér ekki oft. Magnaður árangur hjá flottri liðsheild.

Ríkharð Óskar Guðnason – íþróttafréttamaður á Stöð2 Sport

Innlent:
Tvennt sem kemur upp í huga mér í fljótu bragði. Íslenska landsliðið tryggði sér sigur í mjög erfiðum undanriðli og í leiðinni farseðil á HM í fyrsta sinn í sögu fótboltans. Það verður erfitt að toppa. Ólafía Þórunn náði frábærum árangri og stóð sig heilt yfir vel á LPGA-mótaröðinni og varð fyrst íslenskra kylfinga til að ná inn á túr bestu kylfinga heims. Hún varð golfíþróttinni hér heima til mikils sóma og ætti að ýta ungum krökkum í golfið.

Erlent:
Erlenda afrekið myndi ég segja Real Madrid. Skráðu sig á spjöld sögunnar með að verða fyrsta liðið til að vinna Meistaradeild Evrópu tvö ár í röð, þ.e.a.s. í núverandi mynd keppninnar. Það hafði engu liði tekist að gera.


desktop