Jói Kalli: Skaginn á alltaf að vera í deild þeirra bestu

Jóhannes Karl Guðjónsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍA en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér.

Liðið féll úr Pepsi-deildinni í sumar og mun því leika í Inkasso-deildinni næsta sumar en Jóhannes Karl stýrði HK í sumar.

Hann gerði frábæra hluti með liðið sem endaði í fjórða sæti Inkasso-deildarinnar og var það lið sem kom mest á óvart í deildinni í sumar.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Þetta er mikill heiður fyrir mig að fá tækifæri til að þjálfa ÍA, félag með alla þessa sögu og ég er bara gríðarlega stoltur yfir því að mér sé treyst fyrir þessu verkefni,“ sagði Jóhannes Karl í samtali við 433.is í kvöld.

„Þegar að niðurstaðan var sú að Skaginn vildi fá mig þá tók þetta ekki langa tíma. Það var erfitt að kveðja HK, mér leið vel þar. Það er flott fólk sem stendur á bakvið félagið en svona er fótboltinn og ég er bara spenntu fyrir nýju verkefni.“

Jói Kalli náði frábærum árangri með HK í sumar og segir að reynsla sín úr Kópavoginum muni nýtast sér vel í nýja starfinu.

„Þessi ár í Inkasso eru mikilvæg reynsla fyrir mig og ég er ennþá að mótast sem þjálfari. Þessi reynsla sem ég fékk hjá HK verður afar dýrmæt í baráttunni sem framundan er.“

ÍA er eitt sigursælasta lið í íslenskri knattspyrnusögu og ætlar sér upp í Pepsi-deildina á nýjan leik.

„Auðvitað á Skaginn alltaf að vera í deild þeirra bestu en markmiðið er fyrst og fremst er að búa til þannig lið að þegar Skaginn kemur upp í deild þeirra bestu þá eru leikmenn tilbúnir í verkefnið framundan og tilbúnir að halda sér í deild þeirra bestu.“

Reiknar þjálfarinn með miklum breytingum á leikmannahópi Skagans?

„Við ætlum að reyna eins og við getum að halda okkar mönnum á Skagnum og byggja á þeim grunni sem hefur verið. Ofan á það ætlum við að halda áfram að gefa ungum strákum tækifæri. Til þess að vera lið í efstu deild þá þurfum við góðan grunn af leikmönnum sem hafa ákveðna reynslu.“

Orðrómar hafa verið uppi um það að Garðar Gunnlaugsson ætli sér að leggja skóna á hilluna en Jói Kalli þvertekur fyrir það.

„Garðar Gunnlaugsson er leikmaður ÍA og hann verður klár í slaginn með okkur næsta sumar.“


desktop