Æfingar landsliðsins byrja í dag – Margir lykilmenn ekki að spila

Það er stutt í stóra daginn, þann 11. júní, þegar Ísland og Króatía munu ­eigast við í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og sigri íslenska liðið leikinn er liðið komið í góða stöðu. Króatía er á toppi riðilsins með 13 stig en Ísland jafnar þá með sigri.

Tölfræðin er þó ekki með íslenska liðinu enda hefur Íslandi ekki tekist að sigra í þremur viðureignum liðanna á síðustu árum.

„Þessi leikur snýst í rauninni um hvort við ætlum að berjast um fyrsta sætið í riðlinum. Með sigri þá jöfnum við þá að stigum og þá gefur það okkur möguleika á fyrsta sætinu. Ef þeir vinna og verða sex stigum á undan okkur, með betri markatölu, þá verður þetta erfitt. Þá verða þeir að misstíga sig í þremur af fjórum síðustu leikjunum og það er ólíklegt. Við höldum möguleikanum á fyrsta sætinu opnum með sigri og það myndi gera leikina í ­september og október enn skemmtilegri. ­Miðað við allan þennan mótvind eftir Evrópumótið í Frakklandi þá væri geggjað að vera í baráttu um efsta sætið í riðlinum eftir rúmlega hálft mót,“
sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari Íslands í samtali við 433.is.

Meira:
Heimir svarar Neil Warnock – Hann velur ekki íslenska landsliðið

Undirbúningur íslenska landsliðsins hefst í dag þegar Heimir, Helgi Kolviðsson og ­Sebastian Boxleitner, ­styrktarþjálfari liðsins, hitta Birki Bjarnason. Fleiri leikmenn koma svo til skoðunar á næstu dögum en tímabilið er búið hjá nokkrum leikmönnum og langt er í leikinn. Heimir og félagar ætla því að hjálpa leikmönnum að halda sér í formi fram að leik. Liðið kemur svo allt saman 5. júní.

„Við erum að fara að byrja að hitta leikmennina núna á næstu dögum og aðeins að meta þá og sjá stöðuna á þeim sem eru búnir með sína deild. Það fara næstu dagar í að meta það og sjá hvernig stand er á leikmönnum, hvort við þurfum að bæta einhverju við hjá sumum eða bara halda þeim við. Birkir Bjarnason er ekki búinn að spila lengi og kannski þurfum við að keyra hann aðeins upp, Aron Einar og Jón Daði þurfa líklega bara að halda sér við og Hörður Björgvin er þarna mitt á milli. Sebastian sér um þetta með okkur og við setjum upp plan fyrir hvern og einn. Svo heldur maður áfram að fylgjast með þeim sem eru að spila. Þetta er ekki alveg óskastaða hjá okkur núna, það eru óvenjumargir leikmenn sem eru ekki að spila hjá sínu félagsliði. Margir lykilmenn okkar hafa spilað lítið.“


desktop