Aron Jó ætlar að styðja Ísland á HM – Hvaða nafn fer á treyjuna?

Aron Jóhannsson framherji Werder Bremen hefur náð að brjóta sér inn í liðið hjá þýska félaginu eftir erfiða tíma.

Þessi öflugi sóknarmaður hefur upplifað erfiða tíma síðustu tvö ár eftir að hann gekk í raðir Werder Bremen. Erfið meiðsli hafa hrjáð Aron og þegar hann hefur verið heill heilsu þá hefur hann lítið sem ekkert fengið að spila. Florian Kohfeldt var ráðinn þjálfari Bremen í lok október á síðasta ári og þá virtist ætla að birta til hjá Aroni, liðið lék æfingaleik um leið og hann tók við og þar spilaði Aron. Óheppnin elti hins vegar Aron áfram og meiddist hann á hné í þeim leik, hann var því frá í rúmar sex vikur áður en hann sneri aftur.

Kohfeldt hafði áfram trú á Aroni þegar hann sneri aftur og þegar þýska deildin hófst á nýjan leik í janúar fór Aron að fá tækifæri. Hann hefur síðan tryggt sæti sitt í byrjunarliðinu, skoraði og leggur upp fyrir samherja sína.

Bandaríkin komust ekki á Heimsmeistaramótið í Rússlandi og var það stór skandall í Bandaríkjunum. Aron sem fæddist í Alabama en ólst að mestu upp á Íslandi íhugar að fara til Rússlands í sumar og styðja íslenska liðið enda á hann marga góða vini í liðinu. „Við konan höfum rætt það að skella okkur til Rússlands og kíkja á einn leik,“ sagði Aron í ítarlegu viðtali við 433.is sem mun birtast um helgina.

Hann ætlar að kaupa sér treyju Íslands en hefur ekki ákveðið hvaða nafn fer á hana.

,,Það er þó ekki alveg ákveðið. Ég mun styðja íslenska liðið, það er ekki nokkur spurning. Ég hef ekki ákveðið hvaða nafni ég skelli aftan á búninginn, það verður Finnbogason (Alfreð) eða Guðmundsson (Jóhann Berg). Ég þarf að sjá hvor þeirra býður betur.“


desktop