Fjölmiðlafulltrúi KSÍ fluttur með sjúkraþyrlu í Rússlandi

Ómar Smárason markaðsstjóri KSÍ og fjölmiðlafulltrúi sambandsins var fluttur með sjúkraþyrlu í Rússlandi í síðustu viku eftir að hann missti mátt í vinstri hluta líkamans. Ómar sem er harðjaxl frá Vestmannaeyjum var staddur í borginni Gelendzhik í Rússlandi þar sem starfsfólk KSÍ var að undirbúa sig undir Heimsmeistaramótið í sumar, það var á fimmtudeginum í síðustu viku sem Ómar var að undirbúa sig undir daginn þegar hann missti stjórn á vinstri hluta líkamans. ,,Þetta hefur farið betur en á horfðist, ég var undirbúa mig undir daginn í Gelendzhik þegar ég fékk að þeir halda væga blæðingu. Ég missti alveg máttinn og stjórn á vinstri hluta líkamans, löppin gaf sig og höndin virkaði ekki,“ sagði Ómar þegar 433.is ræddi við hann um málið en hann var þá kominn heim til Íslands.

Sjúkraþyrla í næst bæ
Ómar reif upp símann þegar hann missti stjórn á vinstri hluta líkamans og hringdi í Viði Reynisson öryggisstjóra landsliða KSÍ sem var fljótur að hjálpa félaga sínum. ,,Víðir var fljótur að koma til mín og fyrr en varir var sjúkraliðið mætt á svæðið, ég var fluttur með þyrlu á hátæknisjúkrahúsið í Krasnodar þar sem ég eyddi nokkrum dögum á gjörgæsludeild. Þetta gerðist á fimmtudegi og ég var útskrifaður á mánudag, það var virkilega vel hugsað um mig og Íslendingar sem fara á Heimsmeistaramótið í sumar þurfa ekki að óttast neitt. Það er allt í toppstandi miðað við þessa reynslu mína af sjúkrahúsum, það er bara góð regla að vera með tryggingarskírteinið útprentað.“ Ómar kom til landsins á þriðjudag en á með hann dvaldi á sjúkrahúsinu í Krasnodar fékk hann heimsókn frá Heimi Hallgrímssyni og Helga Kolviðssyni sem litu við hjá honum en Víðir fylgdi honum heim á leið.

Langtíma álag
Þeir sem þekkja til Ómars vita að hann lifir og hrærist í vinnu sinni, fjölmiðlar eiga í góðu sambandi við hann og er hægt að ná í hann nánast öllum stundum. Starfsfólk KSÍ Er undir miklu álagi núna enda sambandið afar lítið og á leið á stærsta íþróttaviðburð í heimi. Líklegt er að svona komi upp eftir langtíma álag og þarf því Ómar að minnka við sig í vinnu, skilja vinnuna eftir í vinnunni og meta það sem hann hefur. ,,Ég held að ég þurfi kannski að vinna minna, það er erfitt að halda sér alveg í burtu. Ég held að svona gerist bara í langtíma álagi, það er ekki nein ein skýring. Ég fer í frekari rannsóknir hérna heima. Maður lærir að meta hlutina aðeins betur og þegar svona kemur upp setur þetta allt í meira samhengi. Ég hef það ágætt eftir þetta, þrekið er afar lítið. Ég fer í göngutúr og líður eins og ég hafi verið að taka heila æfingu í ræktinni, þetta kemur. Hausinn er í lagi, það verður ekki neinn fótboltaferill úr því sem komið er og nú vinnur maður bara í það að ná sér góðum á nýjan leik.“


desktop