Fjórir lykilmenn Íslands gætu þurft að skipta um lið í janúar

Fjórir leikmenn íslenska landsliðsins sem hafa átt fast sæti í hópi liðsins gætu þurft að finna sér nýtt lið í janúar.

Um er að ræða tvo lykilmenn í byrjunarliðinu þá Hörð Björgvin Magnússon og Birki Bjarnason en báðir leika í Championship deildinni á Englandi.

Hörður er algjörlega úti í kuldanum hjá Bristol á meðan Birkir fær ekki mörg tækifæri með Aston Villa.

Rúrik Gíslason hefur fest sig á nýjan leik í hópnum en hjá Nurnberg í Þýskalandi hefur hann átt í vandræðum. Fáir skilja hvað er í gangi en yfirleitt eftir landsleiki er Rúrik settur út úr hópnum.

Arnór Ingvi Traustason fór á láni til AEK Aþenu í sumar en það skref hefur gengið illa, Arnór fær lítið af tækifærum og gæti þurft að yfirgefa liðið fari hlutirnir ekki að breytast.

Ljóst er að allir þessir leikmenn vilja spila mikið af leikjum til að koma í toppformi á HM í Rússlandi.

Birkir og Hörður eiga fast sæti í hópnum en hinir þurfa að spila mínútur til að fara með í ferðalagið til Rússlands.

Rúrik Gíslason (Nurnberg)
Staða hans í Þýskalandi virðist ekki vera góð, er oft utan hóps og eru allar líkur á að hann þurfi að fara í janúar. Rúrik missti af Evrópumótinu í fyrra og vill gera allt til þess að vera í hópnum í Rússlandi.

Birkir Bjarnason (Aston Villa)
Þessi frábæri leikmaður hefur spilað rúmar 160 mínútur í deildinni en ekki fengið þrjá heila leiki í deildarbikarnum. Birkir er ekki í því lykilhlutverki sem flestir áttu von á að hann yrði hjá Villa, hefur ekki fengið nokkra leiki í röð í byrjunarliði Steve Bruce til að finna taktinn. Gæti farið frá félaginu í janúar ef hlutirnir breytast ekki til að vera í sínu besta formi í Rússlandi.

Hörður Björgvin Magnússon (Bristol City)
Lykilmaður í íslenska landsliðinu en hefur ekki fengið að spila eina einustu mínútu í næst efstu deild Englands á þessu tímabili. Hefur fengið leiki í deildarbikarnum en það er ljóst að Hörður verður að fara frá Bristol. Ætti ekki að vera í vandræðum með að finna sér lið í janúar.

Arnór Ingvi Traustason (AEK Aþena)
Hefur spilað 73 mínútur í deildinni í Grikklandi í ár en hann er í láni hjá félaginu frá Rapid Vín. Það er ansi líklegt að Arnór þurfi að yfirgefa AEK í janúar til að koma sér aftur í gang og eiga sæti í íslenska landsliðinu. Ekki er langt síðan að Arnór var fyrsti kostur inn af bekknum en hann hefur fjarlægst því síðustu mánuði.


desktop