Geir útskýrir mál sitt – Átti von á því að Gylfi myndi vinna

Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ var ekki sáttur með valið á íþróttamanni ársins. Hann deildi þeirri skoðun sinni í gær, hann útskýrði mál sitt í Akraborginni í dag.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var valinn íþróttamaður ársins í gær en hún náði frábærum árangri á árinu sem er að líða.

Aron Einar Gunnarsson var í öðru sæti í kjörinu og Gylfi Þór Sigurðsson í því þriðja.

Geir er ósáttur með það að knattspyrnumaður hafi ekki hlotið nafnbótina í ár en íslenska karlalandsliðið tryggði sér sæti á lokamóti HM sem fram fer í Rússlandi næsta sumar, í fyrsta sinn í sögunni.

,,Alltaf þegar maður lætur skoðun sína í ljós þá rísa upp aðrir, þetta er ekki ný skoðun hjá mér. Ég hef haldið þessu fram lengi, að við þurfum að breyta þessu varðandi kjör á íþróttamnni ársins ,“ sagði Geir í Akraborginni.

Hann leggur til að íþróttakarl og íþróttakona ársins verði kjörinn.

,,Það eru allir vel að því komnir sem fá þennan heiður, þetta snýst um það að verðlauna fleiri. Knattspyrnusambandið var eitt af þeim fyrstu til að velja ekki bara knattspyrnumann ársins. Við fórum að velja konur og karla, ég veit ekki hvernig það er hægt að bera þetta saman. Knattspyrnu karla og kvenna og meta hver er betri.“

,,Ég held að það sé leiðin almennt, það væri rétta leiðin að velja íþróttakarl og íþróttakonu ársins. Það væri betri lausn, ég hef verið á þessari skoðun í mörg ár.“

,,Auðvitað átti ég von á því að Gylfi yrði valinn, hans besta ár. Hann hélt Swansea á floti í erfiðustu deild í heimi, við unnum riðilinn fyrir HM. Þar var hann lykilmaður, hann er að rétta við Everton. Ég átti von á því að hann myndi vinna, ég held með fótboltanum. Það vita það allir.“

Viðtalið er í heild hér að neða.


desktop