Guðni og Guðni misstu af fyrra marki Gylfa í gær

Íslenska karlalandsliðið vann gríðarlega mikilvægan sigur í undankeppni HM í gær en leikið var við Úkraínu.

Ísland þurfti að sætta sig við svekkjandi tap gegn Finnum um helgina og þurftu á þremur stigum að halda í gær.

Það var nákvæmlega það sem gerðist en Gylfi Þór Sigurðsson sá um að klára gestina í gulu.

Gylfi kom Íslandi yfir snemma í síðari hálfleik og bætti svo við öðru á 66. mínútu eftir fallega sókn.

Fyrra mark Gylfa var í upphafi síðari hálfleiks en þá voru ekki allir áhorfendur mættir í sætin sín.

Þar á meðal voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Guðni Bergsson formaður KSÍ.

Fréttaritarar 433.is sátu fyrir neðan þá en Guðni Th. kom örlítið fyrr en formaður KSÍ og sá því öll fagnaðarlætin.

Guðni og Guðni fóru upp í VIP-herbergi KSÍ í hálfleik þar sem gestir geta fengið sér veitingar og fljótandi veigar.


desktop