Heimir Hallgrímsson: Staðan í dag er í raun líkari eðlilegu ástandi

Það er stutt í stóra daginn, þann 11. júní, þegar Ísland og Króatía munu ­eigast við í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og sigri íslenska liðið leikinn er liðið komið í góða stöðu. Króatía er á toppi riðilsins með 13 stig en Ísland jafnar þá með sigri.

Tölfræðin er þó ekki með íslenska liðinu enda hefur Íslandi ekki tekist að sigra í þremur viðureignum liðanna á síðustu árum.

Síðasta ár hefur verið erfitt ­fyrir íslensku leikmennina en lítið sem ekkert sumarfrí síðasta sumar vegna þátttöku á EM í Frakklandi hefur tekið mikið á menn líkamlega og andlega. „Það er samt mjög mikilvægt líka að menn fái frí, allur undirbúningur okkar fyrir þennan leik mun miða að því að hafa þetta létt og skemmtilegt. Menn eru búnir að gefa mikið af sér þetta síðasta ár, við reynum að hafa þetta eins líflegt og hægt er. Það er alveg jafn mikilvægt að gefa frí eins og það er að æfa á þessum tímapunkti. Það er mikilvægt að hafa menn andlega tilbúna, yfirleitt gerist það nú sjálfkrafa því það er alltaf líf og fjör þegar strákarnir hittast í þessum landsleikjavikum og ég hef því litlar áhyggjur af þeim hluta. Við þurfum að varast að vera of metnaðarfullir í æfingum því hvíldin á þessum árstíma skiptir meira máli en á öðrum,“ sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari Íslands í samtali við 433.is.

Margir lykilmenn ekki að spila
Síðustu mánuðir hafa verið flóknari fyrir Heimi en þeir voru hér fram að EM, þá voru lykilmenn liðsins alltaf heilir og gátu spilað alla leiki. Nú hafa hins vegar komið upp meiðsli og Heimir hefur þurft að skapa meiri breidd í hópinn. Hann segir að það sé eðlilegra að meiðsli séu til staðar en ekki, eins og staðan var oft. „Strákarnir hafa alltaf fengið að hafa áhrif á álagið í landsliðsverkefnum. Þeir vita hvað er best fyrir þá og við hlustum á það, þetta eru atvinnumenn og hafa alltaf verið ­faglegir í þessum málum. Við erum með færri leikmenn í meiðslum núna en áður, það sem er óvenjulegra er að margir lykilmenn eru lítið að spila. Kári Árnason hefur átt við meiðsli að stríða og sömu sögu er að segja af Ara Frey. Jóhann Berg og ­Birkir Bjarnason eru svo að stíga upp úr meiðslum, stærsta spurningin er varðandi Birki og við skoðum hvort hann sé maður í leik gegn Króötum.“

,,Þetta var í rauninni lygilegt hvernig þessi fjögur ár voru hjá okkur fram að Evrópumótinu, það var nánast alltaf sama byrjunarliðið. Staðan í dag er í raun líkari eðlilegu ástandi. Ég get viðurkennt að þetta hefur reynt aðeins á, Ísland ­vinnur leikina sína á góðri liðsheild og endurtekið sama byrjunar­lið ­styrkir hana. Allir leikmenn þekkja þá styrkleika og veikleika hver annars og breyting myndar oft óvissu. Þetta er samt eðlilegt ástand, hitt var í raun óeðlilegt. Við tókum ­meðvitaða ákvörðun ­fyrir tveimur árum um að gefa öðrum leikmönnum æfingarleikina til að auka breiddina. Sú ákvörðun var góð, breiddin hefur aukist og það eru fleiri leikmenn sem geta valdið þessum hlutverkum. Við treystum fleiri leikmönnum í dag.“


desktop