Heimir þegar hann kom til KSÍ – Mér blöskraði margt

Heimir Hallgrímsson hefur skrifað sig inn í sögubækurnar á Íslandi eftir að hann hóf að þjálfa íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, hann ásamt Lars Lagerbäck kom liðinu á sitt fyrsta stórmót síðasta sumar þegar Ísland komst í 8-liða úrslit á Evrópumótinu í Frakklandi. Á mánudag var svo stærsti dagur í knattspyrnusögu Íslands þegar liðið tryggði sig inn á heimsmeistaramótið í Rússlandi með því að leggja Kósóvó að velli. Heimir tók einn við liðinu fyrir rúmu ári og hefur stimplað sig inn sem einn færasti þjálfari í knattspyrnuheiminum.

Heimir kom inn hjá KSÍ fyrir undankeppni HM árið 2014 ásamt Lars Lagerback.

Meira:
Heimir hefði íhugað að hætta með landsliðið hefði Lagerback verið áfram

Það er óþarfi að fjölyrða um árangur landsliðsins síðustu árin, hann hefur verið súrrealískur. Það er hins vegar svo margt fleira sem hefur breyst í tengslum við landsliðið, bæði er öll umgjörð orðin mun faglegri og nálgun leikmanna mun heilbrigðari. Þessi umbylting hefur tekið ótrúlega skamman tíma því um það leyti sem Heimir byrjaði var ýmislegt að hjá KSÍ.

„Ég kom til KSÍ frá ÍBV og mér fannst í fyrstu ekki vera mikill munur á stjórnun hjá sambandinu og ÍBV. Mér blöskraði margt, til dæmis þótti mér samskiptin við fjölmiðla í ólestri.,“ segir Heimir í ítarlegu helgarviðtali við 433.is og DV.

,,Ég tók að mér að reyna að breyta því þannig að við gæfum meira af okkur til fjölmiðla og stuðningsmanna. Það er svo mikilvægt að segja öllum, stuðningsmönnum og blaðamönnum, hvað við erum að reyna að gera. Þegar þú segir frá því hvað þú ert að reyna að gera þá ertu dæmdur út frá því en ekki út frá því hvað einhver annar vill að þú gerir.“

,,Þetta gildir líka varðandi stuðningsmenn liðsins, á þessum tíma var varla til nokkur stuðningsmannaklúbbur svo að við ákváðum að reyna að ýta undir hann og gera það sama gagnvart stuðningsmönnum, gefa þeim eins miklar upplýsingar um liðið og hægt var.“

Lestu viðtalið í heild í helgarblaði DV.


desktop