Hörmung í Hollandi – Stelpurnar féllu á stóra prófinu

Kvennalandsliðið hefur lokið keppni á Evrópumótinu í Hollandi, liðið fór með miklar væntingar inn í mótið og var liðið talað mikið upp. Freyr Alexandersson þjálfari liðsins fór þar fremstur í flokki, hann talaði um að liðið stefndi á að fara upp úr riðlinum og eftir það væri stutt í úrslitaleikinn. Ljóst er eftir mótið að lítil innistæða var fyrir slíku, liðið skoraði aðeins eitt mark í þremur leikjum og fór liðið heim með skottið á milli lappana. Naflaskoðun er nauðsynleg hjá þjálfarateymi liðsins og mörgum af lykilmönnum liðsins sem féllu á prófinu. Langt er í land ef þetta lið ætlar sér einhverja hluti aftur á stórmóti.

Íslenska liðið byrjaði á erfiðum leik gegn Frakklandi þar sem liðið tapaði með einu marki, vítaspyrna sem mörgum fannst umdeild var það sem skipti á milli. Strax eftir fyrsta leik var farið í það að kenna öðrum um, dómaranum í leiknum var kennt um tapið. Leikmenn fóru því með það hugarfar inn í næsta leik að úrslit síðasta leiks væru ekki liðinu að kenna, þrátt fyrir þá staðreynd að liðið hélt bolta afar illa og var ekki oft líklegt í leiknum. Í leiknum gegn Sviss sem var annar leikur liðsins var aftur farið í það að bölva dómaranum í stað þess að líta í eigin barm, öllu öðru en frammistöðu liðsins var kennt um. Í síðasta leiknum gegn Austurríki á miðvikudag fékk svo liðið skell, liðið var eins og höfuðlaus her á leið í orustu. Að litlu var að keppa en heiðurinn var í boði, heiður íslenska liðsins situr eftir í Rotterdam.

Freyr lærir ekki af mistökum
Ekki er nokkur maður í vafa um að Freyr Alexandersson þjálfari liðsins hefur getu og hæfileika til að ná mjög langt sem þjálfari, hann á þó margt eftir ólært og eitt af því að er að kenna ekki alltaf öðru en sjálfum sér og liðinu um þegar illa fer. Þegar Freyr þjálfaði Leikni í Pepsi deild karla sumarið 2015 var það stærsti galli hans að kenna alltaf öðrum um þegar illa fór, slíkt hugarfar smitaðist inn í lið Leiknis á þeim tíma sem var á köflum gott lið. Brekkan var hins vegar alltaf stór þegar liðið tapaði því öllu öðru en frammistöðu liðsins var kennt um. Slíkt hið sama einkenndi Frey á Evrópumótinu í Hollandi og það smitaðist inn í hópinn í Hollandi sem datt í þá gryfju að horfa ekki í eigin barm heldur kenna hlutum sem ekki var hægt að breyta um.

Ekki hægt að kenna meiðslum um
Nokkrir leikmenn sem höfðu spilað stórt hlutverk í landsliðinu duttu út í aðdraganda mótsins vegna meiðsla, þar má nefna Elísu og Margréti Láru Viðarsdætur en báðar meiddust alvarlega. Dóra María Lárusdóttir datt svo út vegna meiðsla en hún hefði verið í aukahlutverki á mótinu þó vissulega hefði hún getað skipt máli utan vallar sem reyndur leikmaður. Elísa var veikur hlekkur í íslenska landsliðinu fram að meiðslum hennar og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og aðrar sem komu inn í hennar stöðu styrktu leik liðsins, Margrét Lára hefði verið stórt skarð að fylla fyrir nokkrum árum en í aðdraganda mótsins og á síðasta ári sást að hún var meira vandamál í leik liðsins heldur en styrkur, ein af ástæðum þess að Freyr valdi að breyta um leikkerfi frá undankeppninni og inn í mótið var til að halda Margréti inni á vellinum. Hún hafði ekki lengur hlaupagetu að spila sem fremsti maður í liði, hún gat ekki pressað og mörkunum var farið að fækka. Í stað þess að halda sig við kerfið sem virkaði reyndi Freyr að breyta kerfinu fyrir gamla hetju, Margrét var dragbítur fyrir liðið en á vandamálinu þorði Freyr ekki að taka, þegar Margrét meiddist svo rétt fyrir mót gat Freyr ekki breytt um kerfi enda hafði hann æft lítið annað síðust mánuði. Það sem Freyr getur horft til að íslenska liðinu vantaði öflugan sóknarmann en Harpa Þorsteinsdóttir sem er lang besti framherji liðsins eignaðist barn í upphafi árs og gat því ekki tekið þátt í undirbúningi liðsins framan af ári, Harpa kom inn á Evrópumótið en allir sem horfðu á leiki liðsins sáu að Harpa var langt því frá að vera í standi til að spila á meðal þeirra bestu. Með Hörpu í 2016 formi hefði landsliðið verið öflugra, öðrum leikmönnum liðsins mistókst að fylla skarð Hörpu og það reyndist blóðugt.

Lykilmenn stóðu sig ekki
Lykilmenn íslenska liðsins brugðust á ögurstundu, leikmenn sem höfðu borið liðið uppi í síðustu undankeppni fundu ekki taktinn í Hollandi. Þar er hægt að nefna Söru Björk Gunnarsdóttir, Dagnýju Brynjarsdóttir, Guðbjörgu Gunnarsdóttir og Hallberu Guðný Gísladóttir. Um er að ræða alla mikilvægustu hlekki landsins, ekki er hægt að gagnrýna Ingibjörgu Sigurðardóttir, Öglu Maríu Albertsdóttir eða Sigríði Láru Garðarsdóttir. Þær komu aldrei við sögu í undankeppni Íslands og höfðu því enga reynslu af keppnisleikjum með liðinu, Fanndís Friðriksdóttir og Sif Atladóttir geta labbað í burtu af mótinu með höfuðið hátt. Þær lögðu allt í sölurnar og sýndu að þær eiga í fullu tréi við bestu leikmenn heims.

Ítarleg naflaskoðun nauðsynleg
Eftir mót sem þetta er mikilvægt fyrir landsliðið að setjast niður og gera upp það sem er búið og horfa síðan fram á veginn, naflaskoðun er nauðsynleg hjá þjálfarateyminu og fara yfir allt ferlið af mótinu og læra af mistökum sínum. Freyr og þjálfarateymið þarf að skoða allt ferlið, voru það mistök að taka ekki æfingarleik á þeim tveimur vikum sem liðið var saman fram að móti? Voru það mistök að tala upp liðið og getu þess, það er hollt og gott að seta sér háleit markmið en það er mikilvægt að hægt sé að ná þeim. Voru það mistök að fara úr 4-3-3 leikkerfinu sem kom liðinu inn á mótið yfir í 3-4-3 kerfið sem spilað var í Hollandi? Var eðlilegt hvernig liðið fór út til Hollands, liðið fór út sem þjóðhetjur í stað þess að koma heim sem slíkar. Reynt var að gera hlutina eins og þeir voru hjá strákunum fyrir ári síðan en hlutirnir voru tilgerðarlegir í stað þess að vera eðlilegir. Það er hægt að fara langt á hugarfari og baráttu en íslenska liðinu vantar leikmenn sem geta og þora að halda bolta og leikmenn sem ráða við að spila á miklum hraða, of fáir íslenskir leikmenn geta það í dag.

Er Freyr rétti maðurinn fyrir landsliðið?
Eðlilegt er eftir svona mót og slakan árangur að velta því fyrir sér hvort Freyr sé rétti maðurinn fyrir liðið, liðið náði betri árangri á EM í Svíþjóð fyrir fjórum árum síðan þar sem liðið tók fjögur stig í riðli sínum og komst upp úr honum. Freyr hefur sýnt fína takta með liðið en þegar reyndi á fór hann fram úr sér, er það líka eðlilegt að vera með þrjá leikmenn í byrjunarliði í fyrsta leik á stórmóti sem ekki höfðu spilað alvöru landsleik? Freyr þarf að setjast niður með KSí og sjá hvort ekki sé hægt að laga hlutina og bæta úr því sem miður fór og stefna á Heimsmeistaramótið árið 2019.


desktop