Margir íslenskir landsliðsmenn í klípu

Þegar rúmur mánuður er í næsta leik Íslands í undankeppni HM gegn Kosóvó í undankeppni HM má með sanni segja að útlitið hafi oft verið bjartara.

Margir lykilmenn landsliðsins eru á bekknum eða meiddir þessa stundina en síðustu ár hefur þetta ekki verið staðan.

Ef byrjunarliðið í síðasta keppnisleik gegn Króatíu er skoðað má sjá að margir sem byrjuðu þann leik verma tréverkið þessa dagana.

Tímabilið er ekki byrjað hja Hannesi Þór Halldórssyni, Theodóri Elmari Bjarnasyni og Birki Má Sævarssyni á Norðurlöndunum.

Jóhann Berg Guðmundsson hefur ekki komið við sögu í síðustu deildarleikjum Burnley á Englandi en á sama tíma kemst Hörður Björgvin Magnússon ekki lengur í hóp hjá Bristol í ensku B-deildinni.

Birkir Bjarnason gekk í raðir Aston Villa í janúar og eftir að hafa byrjað í nokkrum tapleikjum var Birkir mættur á bekkinn í gær. Ragnar Sigurðsson spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma fyrir Fulham í gær en fór af velli eftir 28 mínútur, ekki er vitað hvort hann hafi verið meiddur.

Jón Daði Böðvarsson byrjar ekki oft hjá Wolves en hann byrjaði í gær í tapi gegn Wigan, framherjanum hefur ekki tekist að skora í keppnisleik frá því í ágúst.

Af byrjunarliði Íslands frá leiknum við Króatíu eru aðeins Kári Árnason, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson að spila lykilhlutverk í sínu liði.

Allir eru í raun að gera frábæra hluti en Gylfi og Aron hafa verið bestu menn síns liðs á þessu tímabili.

Þess utan var Alfreð Finnbogason meiddur í leiknum gegn Króatíu og er ennþá frá, ekki er vitað hvenær hann spilar á ný. Kolbeinn Sigþórsson spilar ekki meira á þessu tímabili og þá hefur Ari Freyr Skúlason misst af síðustu leikjum Lokeren vegna meiðsla.

Emil Hallfreðsson sem hefur bara komið við sögu í einum af fjórum leikjum Íslands hingað til er að gera það gott með Udinese og þá eru Viðar Örn Kjartansson og Sverrir Ingi Ingason að spila stórt hlutverk í Ísrael og á Spáni.


desktop