Óli Jó sagði landsliðsmönnum að þeir færu á stórmót en hann yrði rekinn

Ólafur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Vals gerði liðið að Íslandsmeisturum um síðustu helgi og vann þar með sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í tíu ár. Ólafur sem er 60 ára gamall er afar reynslumikill þjálfari og er í hópi bestu þjálfara sem Ísland hefur átt.

Þjálfaraferill Ólafs hefur verið langur og farsæll en hann hófst árið árið 1982 þegar hann stýrði Einherja. Síðan þá hefur Ólafur farið víða, hann hefur í þrígang þjálfað Skallagrím og þá hefur hann í tvígang stýrt FH og Haukum. Hjá FH voru hans bestu ár en hann þjálfaði liðið frá 2003 til 2007 og vann fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins árið 2004. Ólafur tók síðan við landsliðinu árið 2007 og stýrði því þangað til undir lok árs 2011. Ólafur var svo í tvö ár hjá Haukum eftir það og tók svo við Val fyrir tímabilið 2015 og hefur unnið þrjá stóra titla á þremur árum. Fyrstu tvö árin undir stjórn Ólafs varð liðið bikarmeistari og í ár var komið að því að vinna þann stóra.

Meira:
Óli Jó vildi hætta með landsliðið – Hundleiðinlegt í vinnunni
Óli Jó: Blaðamenn þorðu ekki í málið
Ólafur tók stjórnina hjá Val – Ég sagði Berki að ég myndi ráða
Leikmenn vita af því þegar Óli Jó ætlar með bombur í fjölmiðla
Óli Jó: Ein myndavél og lýsandinn situr í Reykjavík

Tíminn með landsliðinu var erfiður en Ólafur skildi þó margt gott eftir, helst má þar nefna unga leikmenn sem höfðu fengið dýrmæta renyslu.

Ólafur stýrði landsliðinu í fjögur ár með misjöfnum árangri en uppistaða liðsins í dag steig sín fyrstu skref undir stjórn Ólafs.

„Ég hef ekki verið hlynntur því að tala mikið um það en ég var mjög ánægður með minn tíma hjá landsliðinu. Ég var mjög sáttur við það sem ég gerði þar, ég er ófeiminn við að segja það,“ sagði Ólafur í samtali við 433.is.

,,Árangurinn var ekki eins og við vildum, innistæðan var ekki til fyrir því heldur. Það var mikið af ungum leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu. Allt í kringum landsliðið á þessum tíma var lélegra en í kringum félagsliðin á Íslandi. Ég er óhræddur við að segja það að ég var ánægður með minn tíma þarna. Ég var ánægður með þróunina á því sem við gerðum, landslið Íslands hafði verið upp og niður. Unnið leik og tapað leik, við áttum haug af ungum leikmönnum sem voru frábærir í fótbolta og þeim hafði gengið vel nánast öll sín ár í yngri landsliðum.“

,,Á einhverjum tímapunkti, eftir eitt og hálft ár held ég, talaði ég við Pétur Pétursson sem var að aðstoða mig og spurði hvort við ættum ekki að gefa þeim séns. Þá verðum við með frábært landsliðið eftir nokkur ár. Ég hélt fund með leikmönnum og sagði þeim að núna gerðum við þetta svona og þið verðið komnir á stórmót eftir 6–8 ár. Það gerðist fyrr, það var frábært. Ég tók ekki neinn séns, það hafði ekkert gerst áður. Ég sagði líka við leikmennina þegar að ég ákvað að gera þetta svona að ég yrði örugglega ekki að þjálfa þá þegar þeir kæmust á stórmót, það væri örugglega búið að reka mig. Ég var reyndar ekki rekinn, samningurinn minn var bara á enda.“


desktop