„Ólíkt strákunum snýst starfsaldurinn ekki um að fylla bankabókina“

Margrét Lára Viðarsdóttir leikmaður Vals verður 31 árs gömul á næstu dögum en hún er ekki byrjuð að pæla í því hvenær hún hættir í fótbolta. Margrét er í viðtali á Vísir.is.

Margrét er ekki með landsliðinu á EM í Hollandi vegna meiðsla sem hún varð fyrir í sumar og verður hún frá fram á næsta ár.

Hún segir ferilinn í fótboltanum öðruvísi hjá strákum en stelpum. Hún segir fótbolta hjá konunum snúast um leikgleði og hveru miklu stelpur séu tilbúnar að fórna.

Margrét segir hins vegar að starfsaldur knattspyrnumanna snúist meira um að fylla á bankabókina frekar en gleðina sem getur fylgt því að spila þennan fagra leik.

„Okkar fyrrverandi fyrirliði, Katrín Jónsdóttir læknir, spilaði landsleiki þar til hún var orðin 37 ára og braut blað í þeirri sögu,“ sagði Margrét á Vísir.is.

,,Það er ekkert því til fyrirstöðu að vera knattspyrnukona svo lengi sem líkaminn leyfir og gleðin er til staðar. Ólíkt strákunum verðum við ekki ríkar af því að spila fótbolta og því snýst starfsaldurinn ekki um að fylla á bankabókina. Hjá konum snýst fótbolti um leikgleði en það fer mikill tími og fjarvera frá fjölskyldu í að vera í landsliðinu og alltaf spurning hversu miklu þær vilja fórna fyrir boltann.“


desktop