Táraðist þegar skilaboð frá íslenskum landsliðsmanni bárust

Magnús Guðmundsson, eða Maggi Peran eins og hann er oftast kallaður náði að uppfylla draum sonar síns í dag.

Magnús var einn af mörgum sem reyndi að kaupa miða á landsleik Íslands og Kósóvó í næsta mánuði. Leikurinn er í undankeppni HM og gæti íslenska liðið tryggt sér miða á HM í Rússlandi með góðum úrslitum.

Magnúsi mistókst að krækja sér í miða fyrir sig og son sinn. Magnús hafði reynt oft að fá miða á leikinn en aldrei hafði það gengið eftir.

Alltaf er uppselt á leiki karlalandsliðsins og erfitt er að verða sér út um miða.

,,Ætla að biðja ykkur öll um að bíða með miðakaupin. Sonurinn vill sjá goðin,“
skrifaði Magnús á Twitter á dögunum. Hann reyndi svo að kaupa miða í dag en ekkert gekk.

,,Ég hata miðaleysi á landsleiki en elska eftirspurnina. Dreymir um að geta tekið peyjann á leik. Hef reynt 5x en fæ aldrei miða,“ sagði Magnús í dag.

Þessi vandræði Magnúsar bárust til landsliðsmanns en Birkir Már Sævarsson setti sig í samband við Magnús í dag. Hann bauð honum og syni hans á völlinn í næsta mánuði.

,,Úlfur sonur minn fékk fréttir rétt í þessu sem létu hann tárast. Er hægt að vera með fallegra hjarta? Birkir Már Sævarsson,“ sagði Magnús á Twitter.

Skilaboðin frá Birki og mynd af syni Magnúsar má sjá hér að neðan en hann var afar sáttur við tíðindin.


desktop