Tugum Íslendinga hent út af hótelum í Rússlandi

Íslenskt knattspyrnuáhugafólk sem er að bóka hótelgistingu vegna heimsmeistaramótsins í Rússlandi lendir nú um stundir í vandræðum vegna hótela sem það hafði bókað gistingu á í bæði Moskvu og Rostov-on-Don í sumar. 433.is hefur rætt við nokkra einstaklinga sem höfðu bókað hótelgistingu og fengið staðfestingu á bókun sinni. Þeir hafa síðar fengið skilaboð um að bókunin hafi ekki gengið í gegn. Þeim er svo boðið að bóka hótelgistingu á nýjan leik en á miklu hærra verði en þeim hafði áður boðist. Margir Íslendingar ætla að leggja leið sína til Rússlands og sjá íslenskt knattspyrnulandsliðið í fyrsta sinn á HM og hefur stór hluti þeirra nú þegar bókað ferð sína. Þeir vita þó ekki hvort þeir fái miða á leikina, en FIFA hefur nú lokað fyrir umsóknarferli um miða og dregið verður úr því happadrætti í mars. „Ég er að fara til Rússlands með fjölskylduna í sumar, hótelið sem ég bókaði í Moskvu hefur nú ákveðið að henda okkur út,“ sagði Sigurður Hjaltested um málið en hann er einn af þeim sem hafa lent í þessu.

Fékk staðfestingu
Sigurður bókaði í gegnum vefinn booking.com sem margir Íslendingar nota og treysta. „Ég bókaði í gegnum Booking og fékk staðfestingu þaðan og í skilmálum kom fram að ég ætti að borga við komu á hóteli, ég fékk síðan viðvörun frá þeim um að kortið mitt hefði ekki virkað og að ég hefði 24 klukkustundir til að laga kortið. Fimm mínútum síðar fékk ég svo póst um að búið væri að aflýsa þessari bókun. Hótel í Rússlandi virðast stunda þetta núna en ferðafélagar mínir lentu í þessu sama í Rostov og vita af fleiri Íslendingum í sömu stöðu.“

Íhugar að hætta við ferðina
Sigurður hugðist fara í þessa ferð með fjölskyldunni, sex manns allt í allt og þar af fjórum börnum. „Núna er ég án hótels í Moskvu með sex einstaklinga og þar af fjóra krakka, ég íhuga það alvarlega að aflýsa þessari draumaferð. Það er ekki þess virði að fara til Rússlands og eiga á hættu að standa uppi án hótelgistingar, ég beini því til fólks að passa sig á þessu.“


desktop