Ástæðan fyrir því að Benzema hætti að bera virðingu fyrir Mourinho

Karim Benzema, framherji Real Madrid greindi frá því á dögunum af hverju hann hefði hætt að bera virðingu fyrir Jose Mourinho, stjóra Manchester United.

Þeir unnu saman hjá Real Madrid á sínum tíma og varð liðið m.a spænskur meistari með Mourinho við stjórnvöllinn.

Hann missti hins vegar klefann hjá liðinu, tímabilið 2012/13 og fékk leikmenn liðsins upp á móti sér sem varð til þess að hann hætti og fór aftur til Chelsea.

„Ef þú átt ekki hund til þess að fara á veiðar þá tekurðu köttinn þinn með þér. Þú munt alltaf veiða minna en þú veiðir samt eitthvað,“ sagði Mourinho og átti þar við Benzema.

Framherjinn var ekki sáttur og fór og ræddi atvikið við stjórann á skrifstofu hans.

„Ég sagði það sem ég þurfti að segja og það tók einhvern klukkutíma. Ég er knattspyrnumaður, þú ert þjálfari, ég ber virðingu fyrir þér og þú átt að virða mig sem leikmann,“ sagði Benzema.

„Frá þeirri stundu þá var aldrei aftur talað um kött eða hund, ég er feiminn að eðlisfari en ef þú gerir svona grín að mér þá mun ég svara fyrir mig.“

„Samband okkar var alltaf gott en eftir þetta þá var ýmislegt sagt í hita leiksins sem menn ættu eflaust ekki að segja. Mín tilfining var alltaf sú að hann hefði notið þess að segja þetta og hlegið af því sjálfur,“ sagði hann að lokum.


desktop