Barcelona ætlar að reyna við Coutinho þrátt fyrir mótmæli frá Messi

Barcelona ætlar að leggja fram nýtt tilboð í Philippe Coutinho, sóknarmann Liverpool í janúar en það er Don Balon sem greinir frá þessu í dag.

Lionel Messi, sóknarmaður Barcelona skrifaði á dögunum undir nýjan samning við félagið en samkvæmt spænskum fjölmiðlum fær Messi nú að hafa áhrif á leikmannakaup félagsins eins og nýr samningur segir til um.

Fyrr í haust á Messi að hafa beðið forráðamenn félagsins um að hætta að reyna við Coutinho og kaupa varnarmann í staðinn.

Þrátt fyrir þetta þá ætlar Barcelona að leggja fram nýtt, 135 milljón punda tilboð í Coutinho en Liverpool hafnaði þremur tilboðum frá Barcelona í hann, síðasta sumar.

Börsungar vilja klára kaupin í janúar þar sem þeir vilja ekki taka sénsinn á því að Coutinho eigi frábært Heimsmeistaramót og hækki þar af leiðandi umtalsvert í verði.

Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að Liverpool sé tilbúið að selja einn sinn allra besta leikmann á miðju tímabili.


desktop