Fjórir hlutir sem Mourinho hefur gert vel síðan hann tók við United

Jose Mourinho tók við Manchester United síðasta sumar og hefur gert fína hluti með liðið síðan hann tók við.

United situr sem stendur í fimmta sæti deildarinnar með 60 stig en á leik til góða á Manchester City sem er í fjórða sætinu með 64 stig og tvo leiki til góða á Liverpool sem er í þriðja sætinu með 66 stig.

Þá er liðið komið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar en Mourinho hefur gefið það út að liðið verði að vinna keppnina, ætli það sér í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Þrátt fyrir þetta hefur United fengið talsverða gagnrýni á leiktíðinni en liðið hefur verið tapa stigum gegn smærri liðum og stuðningsmenn liðsins eru ekki sáttir með það.

TalkSport tók saman lista yfir fjóra hluti sem Mourinho hefur gert vel síðan hann tók við liðinu.

1. Vill vinna allt sem í boði er
Mourinho er þannig stjóri að hann vill vinna alla bikara sem í boði eru. Þrátt fyrir að margir stjórar gefi þetta út þá hefur hann alltaf reynt að stilla upp sínu sterkasta liði, þrátt fyrir erfiða leikjadagskrá.

2. Önnur lið hræðast United
Þegar Louis van Gaal og David Moyes voru með liðið þá var oft hlegið að United. Í dag hlær enginn að liðinu enda reikna allir með því að United sé að fara gefa þeim alvöru leik eins og þegar Sir Alex Ferguson var með liðið.

3. Gert kraftaverk með varnarlínu liðsins
Mourninho hefur unnið vel með varnarlínu liðsins, þrátt fyrir að margir varnarmenn liðsins hafi verið í meiðslum, meira og minna allt tímabilið. Vörnin hefur spilað vel á þessari leiktíð, sama hver spilar og það er að mörgu leyti Mourinho að þakka.

4. Óhræddur við að gagnrýna leikmenn
Þrátt fyrir að vera hjá einu stærsta félagi í heimi þá er Mourinho óhræddur við að gagnrýna leikmenn liðsins opinberlega. Það hefur skilað sér því Luke Shaw hefur t.a.m spilað mjög vel síðan að Mourinho lét hann heyra það á dögunum.


desktop