Forráðamenn United sagðir vera komnir með upp í kok af umboðsmanni Pogba

Forráðamenn Manchester United eru orðnir þreyttir á Mino Raiola, umboðsmanni Paul Pogba en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu í dag.

Raiola er duglegur að tjá sig í fjölmiðlum um málefni skjólstæðinga sinna og er það farið að fara verulega fyrir brjóstið á helstu yfirmönnum Manchester United.

Raiola er með marga af færustu knattspyrnumönnum heims á sínum snærum en hann hefur verið duglegur að segja United hvar þeir eigi að spila Paul Pogba.

Times greinir frá því að þetta hafi allt saman byrjað þegar Jose Mourinho ákvað að bekkja Pogba í leiknum gegn Huddersfield en Portúgalinn hefur einnig verið duglegur að kippa honum af velli að undanförnu.

Raiola á að hafa verið tíður gestur á æfingasvæði United, Carrington en Pogba er ekki eini leikmaður United sem er á mála hjá Raiola því þeir Zlatan Ibrahimovic, Romelu Lukaku og Sergio Romero eru allir skjólstæðingar hans.


desktop