Gylfi er alveg rólegur – Ég er ekki að reyna að fara frá Swansea

Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Swansea kveðst ekki ætla að berjast fyrir því að fara frá félaginu í sumar.

Mörg stærri lið hafa áhuga á Gylfa eftir frábæra frammistöðu hans með Swansea á tímabilinu en hann bjargaði liðinu frá falli.

Everton er sterklega orðað við Gylfa en West Ham og fleiri lið hafa áhuga á þessum magnaða leikmanni.

,,Ég gerði nýjan samning síðasta sumar og á þrjú ár eftir,“ sagði Gylfi við fjölmiðla á Bretlandseyjum.

,,Það er undir félaginu komið hvort ég fari, hvort félagið vill selja mig. Ég er ekki að reyna að fara frá Swansea og vil ekki fara. Ég er mjög ánægður hérna.“

Gylfi kom til Swansea aftur sumarið 2014 eftir að hafa verið hjá Tottenham í tvö ár.

,,Þetta hefur verið einfalt síðustu mánuði, við vorum í mjög alvarlegri stöðu í deildinni og það var því ekki erfitt að halda einbeitingu.“

,,Það verður áfram þannig, það sem gerist kemur í ljós. Ég er ekki að berjast fyrir því að fara, það er ekki eins og ég vilji fara. Ég er bara rólegur og hugsa ekki um það sem fólk er að skrifa.“

Gengi Swansea batnaði mikið eftir að Paul Clement tók við sem þjálfari á tímabilinu en hann var þriðji þjálfari liðsins á tímabilinu.

,,Þú þarft bara að skoða þjálfarateymið sem kom inn, það er frábær og Paul Clement veit hvað hann er að gera.“

,,Þú sást það frá fyrsta degi, hann hefur verið frábær og náð að breyta andrúmsloftinu, stemmingunni og sjálfstraustinu í liðinu. Svo lengi sem hann er hérna að þá er félagið í góðum höndum.“


desktop