Heimir útskýrir af hverju hann valdi Klopp þjálfara ársins

Heimir Hallgrímsson þjálfari Íslands valdi Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, sem þjálfara ársins fyrir árið 2016 en þetta var birt í gær.

Heimir valdi Klopp í efsta sætið á sínum lista, Fernando Santos, landsliðsþjálfara Portúgals í annað og Diego Simeone í þriðja.

Lokahóf FIFA fyrir árið 2016 var í gær val Heimis á Klopp vakti talsverða athygli.

Klopp endaði með Liverpool í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og tapaði tveimur úrslitaleikjum.

,,Ég hef mínar ástæður fyrir þessu vali,“ sagði Heimir þegar 433.is leitaði viðbragða hans í dag.

,,Mér finnst stíllinn sem hann hefur sem þjálfari góður, það er mikil gleði og kraftur í kringum hann. Ef þú skoðar valið mitt á þjálfurum ársins síðustu ár þá hefur þetta verið með svipuðum stíl.“

,,Ég hef valið Diego Simeone sem þann besta og hann er í þriðja sæti hjá mér núna, Fernando Santos var í öðru sæti hjá mér núna. Mér fannst Klopp eiga þetta skilið, ég fýla þjálfara sem ná árangri en eru ekki endilega með bestu leikmennina. Ég reyni að fylgjast vel með því, þetta er ekki endilega þeir sem vinna heldur þeir sem vinna eftir ákveðnum gildum. Mér fannst Klopp gera það mjög vel.“

Aðspurður hvort Claudio Ranieri þjálfari Leicester hefði ekki komið ti greina sagði Heimir svo hafa verið.

,,Reyndar hefði hann kannski átt að vera þarna en ég var meira að horfa í stíl og hvernig menn vinna hlutina,“ sagði Heimir en Ranieri var kjörinn sá besti eftir að hafa unnið kraftaverk og gert liðið að enskum meisturum.


desktop