Jurgen Klopp: Þetta var skelfilegur, skelfilegur, skelfilegur varnarleikur

Tottenham tók á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag en leiknum lauk með 4-1 sigri heimamanna.

Harry Kane og Heung-Min Son komu Tottenham yfir snemma leiks áður en Mohamed Salah minnkaði munn fyrir Liverpool um miðjan fyrri hálfleikinn.

Dele Alli skoraði svo þriðja mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks og Harry Kane bætti við fjórða markinu í upphafi síðari hálfleiks og lokatölur því 4-1 fyrir Tottenham.

Jurgen Klopp, stjóra Liverpool var ekki skemmt eftir leikinn enda varnarleikur liðsins hrein hörmung í dag.

„Þessi leikur og þessi úrslit, það er ekki hægt að skrifa þetta á neinn nema okkur sjálfa. Tottenham voru góðir en við gerðum þeim auðvelt fyrir í dag,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports.

„Fyrsta markið þeirra kom eftir innkast og við vorum sofandi. Þetta var bara skelfilegur, skelfilegur, skelfilegur varnarleikur. Seinna markið var svipað, skyndisókn og Dejan Lovren missir af boltanum og þá er þetta orðið of seint.“

„Við áttum smá möguleika þegar að við skorum að koma okkur aftur inní leikinn en það þýðir ekkert að ræða það núna. Þriðja markið sem við fáum á okkur kemur eftir fast leikatriði, brjótum klaufalega. Fjórða markið, þeir vinna þriðja og fjórða boltann í teignum. Þeir vildu þetta meira en við.“

„Leikurinn kláraðist eftir fjórða markið. Við komum hingað til þess að ná í úrslit en áttum ekki séns í eina sekúndu í dag,“ sagði Klopp að lokum.


desktop