Jurgen Klopp útskýrir mikilvægi Salah – Segir hann geta slegið markametið

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool hefur trölltrú á Mohamed Salah, sóknarmanni liðsins og segir að hann geti slegið markametið í ensku úrvalsdeildinni.

Salah kom til Liverpool í sumar frá Roma en enska félagið borgaði 34 milljónir punda fyrir Egyptann.

Hann hefur verið frábær í upphafi leikíðar og hefur nú skorað 14 mörk í 18 leikjum fyrir félagið, þar af 9 í ensku úrvalsdeildinni og er markahæsti maður deildarinnar.

„Ef hann heldur áfram á sömu braut þá gæti hann endað tímabilið með 70 mörk, þó það sé kannski ekki mjög líklegt,“ sagði Klopp.

„Hann er í frábæru standi og allir strákarnir í liðinu kunna mjög vel við hann. Þeir vissu það frá fyrsta degi að við vorum að kaupa mjög góðan leikmann.“

„Hann er okkur mjög mikilvægur, líka þegar hann skorar ekki því hann teygir vel á varnarlínu andstæðinganna.“

„Ef hann heldur áfram á sömu braut þá gæti hann slegið markametið í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði stjórinn að lokum.


desktop