Lallana útskýrir af hverju hann bað liðsfélaga sína afsökunar

Manchester City tók á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Það var James Milner sem kom Liverpool yfir með marki úr vítaspyrnu á 51 mínútu en Sergio Aguero jafnaði metin fyrir City á 69 mínútu og þar við sat.

Adam Lallana, miðjumaður Liverpool fékk sannkallað dauðafæri á 80 mínútu þegar að hann var nánast einn gegn marki en á einhvern óskiljanlegan hátt þá hitti hann ekki boltann.

„Ég varð of æstur í færinu. Ég var byrjaður að fagna áður en ég reyndi að skjóta í rauninni en hann skoppaði eitthvað illa fyrir framan mig.“

„Ég tók augun af boltanum og varð of spenntur. Ég var alveg niðurbrotinn eftir þetta, ef ég hefði skorað þarna þá hefðum við unnið leikinn, ég er alveg viss um það.“

„Ég fór beint inn í klefa og bað liðsfélaga mína afsökunar. Mér leið eins og ég hafi þurft að biðja þá afsökunar. Þetta var færi sem ég átti að skora úr, svo einfalt er það.“

„Ég bað liðsfélaga mína afsökunar á því að hafa ekki hitt boltann en þeir voru rólegir yfir þessu. Svona hlutir gerast, þetta var gott stig en ég er ennþá að svekkja mig á því að hafa ekki skorað þetta sigurmark.“


desktop