Liverpool fer ósigrað í gegnum tímabilið á móti stærstu liðunum

Manchester City tók á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Það var James Milner sem kom Liverpool yfir með marki úr vítaspyrnu á 51 mínútu en Sergio Aguero jafnaði metin fyrir City á 69 mínútu og þar við sat.

Lokatölur því 1-1 í hörkuleik en City er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 57 stig en Liverpool er í því fjórða með 56 stig.

Liverpool hefur nú lokið leik gegn stærstu liðum Englands, þeim City, United, Arsenal, Chelsea og Tottenham en árangur liðsins í þessum viðureignum er vægast sagt góður.

Í þessum tíu leikjum er liðið með 5 sigra og 5 jafntefli, sem gera 20 stig samtals.

Þetta gerðist síðast tímabilið 1995-96 og því ljóst að leikmenn liðsins hafa mætt tilbúnir í stóru leikina.


desktop