Sálfræðistríðið byrjað hjá Conte fyrir leikinn gegn Liverpool

Liverpool tekur á móti Chelsea í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn næsta klukkan 17:30.

Liverpool er í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig á meðan Chelsea er í þriðja sætinu með 25 stig og því ljóst að það er mikið undir á Anfield.

Antonio Conte, stjóri Chelsea er strax byrjaður í sálfræðistríði fyrir leikinn og er ósáttur með að Liverpool fái aukadag í hvíld vegna Meistaradeildarinnar.

„Sá sem skipuleggur leikjaplanið þarf að vera með athyglina á hreinu, það er alveg ljóst,“ sagði Conte.

„Þetta verður erfiðara fyrir okkur því við spilum við Qarabag á miðvikudaginn og þurfum svo að fara beint aftur til London. Við spilum svo mjög mikilvægan lek við Liverpool á laugardaginn, er það eðlilegt? Það finnst mér ekki.“

„Ef einhver vill meira jafnvægi í ensku úrvalsdeildina þá þurfa menn að vinna heimavinnuna sína áður en þeir raða leikjunum niður,“ sagði stjórinn pirraður að lokum.


desktop