Segir að Klopp sé farinn að fara verulega í taugarnar á öðrum stjórum

Brighton tók á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um helgina en leiknum lauk með 5-1 sigri gestanna.

Það voru þeir Emre Can, Roberto Firmino og Philippe Coutinho sem skoruðu mörk Liverpool í leiknum en Glenn Murray klóraði í bakkann fyrir Brighton með marki úr vítaspyrnu.

Þegar flautað var til leiksloka virtist Chris Hughton ekkert alltof æstur í að taka í höndina á Jurgen Klopp, stjóra Liverpool og virtist hann verulega pirraður á Þjóðverjanum.

Ian Wright, fyrrum framherji Arsenal og núverandi sparkspekingur vill meina að hegðun Klopp á hliðarlínunni sé farin að fara í taugarnar á öðrum stjórum.

„Málið með Klopp er það að hann fagnar alltaf þegar liðið hans skorar og maður skilur það vel, en hann gefur aldrei neitt eftir. það skiptir ekki máli hvort liðið sé að skora mark númer eitt eða fimm, hann fagnar alltaf jafn mikið,“ sagði Wright.

„Hughton er ekki eini stjórinn sem pirrar sig á þessu, þeir eru fleiri þarna og maður skilur það vel, þetta er óþarfi hjá honum þó hann sé ekki að reyna vera með nein leiðindi,“ sagði hann að lokum.


desktop