Segir leikmönnum Tottenham að einbeita sér að efstu fjórum sætunum

Hugo Lloris, fyrirliði Tottenham hefur hvatt leikmenn liðsins til þess að hætta að hugsa um enska úrvalsdeildartitilinn og einbeita sér að efstu fjórum sætunum í deildinni.

Tottenham hefur nú tapað tveimur stórum leikjum í röð á þessari leiktíð, fyrst gegn Manchester United og svo gegn Arsenal um helgina.

Liðið situr nú í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig, einu stigi meira en Liverpool, Arsenal og Burnley og er 11 stigum á eftir toppliði Manchester City.

„Fyrir helgina vorum við að hugsa um City en núna er mikilvægt fyrir okkur að halda okkur í topp fjórum,“ sagði Lloris.

„Það er alltaf verið að tala um það að Tottenham sé að spila uppá titilinn en það mikilvægasta fyrir okkur núna er að einbeita okkur að því að sýna stöðugleika í deildinni.“

„Síðustu tvö tímabil höfum við náð í Meistaradeildarsæti og við þurfum að halda því áfram. Við erum með ungt lið og það mun hjálpa okkur til lengri tíma litið,“ sagði hann að lokum.


desktop