Segir Lukaku versta framherja United síðan Diego Forlan spilaði með liðinu

Manchester United tók á móti Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar um helgina en leiknum lauk með 2-1 sigri gestanna.

Það voru þeir David Silva og Nicolas Otamendi sem skoruðu mörk City í leiknum en Marcus Rashford jafnaði metin fyrir United í stöðunni 1-0.

Stuðningsmenn Manchester United eru margir hverjir ósáttir við Romelu Lukaku, framherja liðsins en honum hefur ekki tekist að skora gegn neinu af topp sex liðunum í deildinni.

„Ég var að fylgjast með leiknum í gær og ég bað til guðs um að Romelu Lukaku myndi ekki fá boltann,“ sagði Adam, stuðningsmaður United í samtali við TalkSport í morgun.

„Hann er versti framherji sem við höfum haft síðan Diego Forlan var hérna. Hann getur ekki hlaupið með boltann, hann getur ekki tekið menn á.“

„Það eina sem hann getur gert er að halda boltanum. Hann er algjörlega gagnslaus,“ sagði hann að lokum.


desktop