Theo Walcott: Reyni allt til þess að gefa stjóranum hausverk

Arsenal tók á móti BATE í Evrópudeildinni í kvöld en leiknum lauk með 6-0 sigri heimamanna þrátt fyrir að Arsenal hafi stillt upp hálfgerðu varaliði í kvöld.

Það voru þeir Mathieu Debuchy, Theo Walcott og Jack Wilshere sem skoruðu mörk Arsenal í fyrri hálfleik og staðan því 3-0 í leikhléi.

Denis Polyakov varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark í upphafi síðari hálfleiks áður en þeir Olivier Giroud og Mohamed Elneny bætti við tveimur mörkum til viðbótar og lokatölur því 6-0 fyrir Arsenal.

Theo Walcott, fyrirliði Arsenal í kvöld var að vonum sáttur með spilamennskuna.

„Stjórinn sagði okkur bara að njóta þess að spila. Við fengum mikið frjálsræði í kvöld. Varnarlega vorum við mjög öruggir og það var frábært að skora öll þessi mörk,“ sagði Walcott eftir leik.

„Það er mikil samkeppni um stöður í liðinu. Við gerum allt til þess að gefa stjóranum hausverk þegar kemur að því að velja liðið. Við vorum alvöru atvinnumenn í kvöld og vonandi náðum einhverjir að spila sig inní liðið,“ sagði hann að lokum.


desktop