Eiður Smári: Emil átti besta hálfleik sem ég hef séð í fótbolta lengi

Íslenska karlalandsliðið vann gríðarlega mikilvægan sigur í undankeppni HM í kvöld en leikið var við Úkraínu.

Ísland þurfti að sætta sig við svekkjandi tap gegn Finnum um helgina og þurftu á þremur stigum að halda í kvöld.

Það var nákvæmlega það sem gerðist en Gylfi Þór Sigurðsson sá um að klára gestina í gulu.

Gylfi kom Íslandi yfir snemma í síðari hálfleik og bætti svo við öðru á 66. mínútu eftir fallega sókn.

Emil Hallfreðsson var einn besti leikmaður liðsins en hann vakti athygli Eiðs Smára Guðjohnsen sem var sérfræðingur á RÚV í kvöld.

,,Varnarlínan var frábær, Hannes tók allt. Emil Hallfreðsson átti sennilega besta hálfleik sem ég hef séð í fótbolta í lengri tíma, hann hefur oft fengið gagnrýni út á við en hann tók þennan seinni hálfleik yfir. Hann tók á skarið í fyrsta markinu, Jói Berg fórnar sér og fer í markmanninn. Gylfi mun taka allar fyrirsagnir en í seinni hálfleik voru Aron Einar og Emil út úr kortinu góðir,“ sagði Eiður á RÚV.

,,Það þurfti einn sprett frá Emil til að brjóta upp leikinn, hann kemur með góðan bolta fyrir og Jói er mættur á réttan stað. Upp úr því fáum við mark.“

Eiður Smári hrósaði einnig Ragnari Sigurðssyni og Sverri Inga Ingasyni sem léku í hjarta varnarinnar.

,,Að fá þeta mark í upphafi seinni hálfleik hjálpaði og spilamennskan eftir það var góð, Raggi og Sverrir, það var eins og þeir hefðu spilað saman í tíu ár.“

,,Þetta var frá bært, við fórum í annan gír í seinni hálfleik. Annan gír sóknarlega og annan gír varnarlega, við gáfum ekkert færi á okkur í seinni hálfleik. Við vorum að skapa okkur nokkur færi, við nýttum þau færi sem við fengum

,,Þessi kynslóð og þetta lið þarf ekki nema tvö eða þrjú færi til að skora, við þurftum oft fimm eða sex færi til að skora. Þetta lið skorar alltaf mörk.“


desktop