Fer karlalandsliðið til Kína í nóvember?

Beijing Youth Daily segir frá því að Ísland muni mæta Kína í vináttulandsleik í nóvember.

Sagt er að leikurinn fari fram þann 10. nóvember þegar landsleikjahlé er í gangi.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, vill ekki staðfesta þessar fréttir í samtali við Vísi.is.

„Ég get ekki sagt að við séum ekki að fara til Kína en heldur ekki staðfest að við séum að fara þangað. Við erum með erlenda ráðgjafa sem eru að hjálpa okkur að finna verkefni og við vonumst til að vera búin að finna lausn á þessu mjög fljótlega,“ segir Klara við Vísi.

Íslensk landslið þekkja það vel að fara til Kína en kvennalandsliðið undirbjó sig fyrir EM með ferð þangað.

Karlalandsliðið fór svo í ferð þangað í janúar en þá voru bestu leikmenn Íslands ekki með.

Ísland er komið beint inn á HM og þarf því ekki að fara í umspil í nóvember. Íslenska liðið gæti því verið að fara til Kína en sögusagnir eru á kreiki um að liðið fari til Bandaríkjanna.


desktop