Heimir: Þurfum að eiga hinn fullkomna leik til að vinna Króatíu

Það er stutt í stóra daginn, þann 11. júní, þegar Ísland og Króatía munu ­eigast við í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og sigri íslenska liðið leikinn er liðið komið í góða stöðu. Króatía er á toppi riðilsins með 13 stig en Ísland jafnar þá með sigri.

Tölfræðin er þó ekki með íslenska liðinu enda hefur Íslandi ekki tekist að sigra í þremur viðureignum liðanna á síðustu árum.

Íslenska liðið er farið að þekkja vel til Króatíu eftir leikina undanfarið, í fyrri leiknum í þessum riðli ­tapaði Ísland 2-0 í Zagreb en leikurinn hjá íslenska liðinu var vel spilaður og liðið óheppið að taka ekki stig úr þeim leik. Lið Króatíu er afar vel mannað og liðið eitt það besta í knattspyrnunni í dag.

,,Við búum að mikilli reynslu af leikjum við ­Króatíu, þetta eru þrír leikir á ­þremur árum.
Þeir hafa góða leikmenn og ef maður skoðar hvar þeir eru að spila, þá fæst það staðfest. Þeir voru með fjóra leikmenn í ­undanúrslitum Meistaradeildarinnar,“
sagði Heimir Hallgrímsson í samtali við 433.is.

,,Þeir eru með markmann í Monaco, framherja í Juventus, tvo miðjumenn í Real ­Madrid, miðjumann í Barcelona. Þessir menn eru að spila mjög vel og eru að toppa sig á þessum tímapunkti. Þeir eru með frábæra einstaklinga sem mynda gott lið. Við verðum að leika vel og nánast eiga hinn fullkomna leik til að vinna þá. Við náðum svolítið að núlla þá út með góðum varnarleik í Króatíu en það bitnaði á sóknarleiknum okkur.“


desktop