Plús og mínus – Sem betur fer er ekki hægt að kaupa Gylfa frá okkur

Íslenska karalalandsliðið vann Úkraínu í kvöld 2-0 á Laugardalsvelli en það hefur ekki farið framhjá neinum.

Gylfi Þór Sigurðsson átti stórleik fyrir Ísland og skoraði bæði mörkin í kvöld. Allt liðið stóð sig þó frábærlega.

Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum þó það sé aðallega bara gott!

Plúsar :

Gylfi Þór var maður leiksins í dag. Hann skoraði tvö mörk og var allt í öllu þegar kom að uppbyggingu í okkar sóknarleik. Það sem hefur ávallt einkennt hann er þessi yfirvegun sem hann hefur og skilaði hún sér svo sannarlega eftir slakan fyrri hálfleik Íslendinga. Sem betur fer er ekki hægt að kaupa Gylfa frá landsliðinu !

Landsliðið fær stórann plús fyrir að láta ekki slakan fyrri hálfleik draga sig niður. Þeir komu út í seinni og skildu allt eftir á vellinum og fóru að spila á sinni getu.

Hannes átti nokkrar mikilvægar vörslur í dag þó að Íslendingar hafi ekki gefið mikið af færum á sig. Hann fær plús fyrir að vera ávallt tilbúinn þrátt fyrir rólegan leik.

Heimir fær plús fyrir að þora að breyta. Með því að fá Jón Daða inn vorum við hættulegri í háum boltum og gátum haldið honum mun betur. Á sama tíma er erfitt að slíta í sundur Kára og Ragnar en það að setja Sverrir inn fyrir þennan leik var áhættumikið skref sem svínvirkaði.

Bakverðir okkar fá plús í dag fyrir gífurlega vinnusemi. Hlupu fram og til baka og sinntu báðum hlutverkum vel. Flottar fyrirgjafir sem komu frá þeim og sköpuðu mörg hættuleg færi.

Það að menn séu trekk í trekk að fá tækifærið inn í landsliðið og skila frá sér svona leik er unun fyrir okkur stuðningsmennina. Þetta þýðir að breiddin er góð og það er stór plús að við séum að nýta hana.

Uppleggið á leiknum uppá tíu hjá Heimi í dag. Langir fundir að skila sér inná völlinn og undirrituðum leið aldrei eins og þetta væri í hættu.

Leikurinn í dag var hreinn úrslitaleikur um það hvort við myndum ráða okkar ferð sjálfir í loka leikjunum. Það að mæta til leiks í dag og klára þennan leik svona er gríðarlegur plús fyrir landsliðið og kannski ekkert sem á að koma okkur á óvart lengur enda erum við hreinlega með frábært landslið.

Þegar að maður hélt að maður gæti ekki hrósað Tólfunni meira þá stíga þeir upp. Í dag kom stór hópur af stuðningsmönnum Úkraínu sem heyrðist hátt í. Þá einfaldlega heyrðist hærra í Tólfunni og enn og aftur sýndu þeir að við eigum bestu stuðningsmenn í heimi.

Heimsklassa varnarleikur í dag. Ekki einn veikur hlekkur og allir unnu fyrir alla. Unun að fylgjast með svona góðum varnarleik.

Aron Einar var okkar fyririði í dag og sýndi það með hörku og þrautseigju. Vann flest allar tæklingar og leiddi okkar lið til sigurs.

Það verður að hrósa Heimi Hallgrímssyni fyrir að hlusta ekki á sófasérfræðingana og halda sig við kerfið þrátt fyrir slæm úrslit í Finnlandi.

Mínusar :

Það er stór mínus að Emil hafi látið spjalda sig eftir einungis 2 mínútur fyrir ansi klaufalegt brot. Ekki nóg með það að hann þurfti að haga sér í 88 mínútur til viðbótar þá er hann kominn í bann á móti Tyrkjum og það gæti reynst okkur dýrt. Vonandi að breiddin haldi áfram að virka fyrir okkur.

Ísland var ekki mætt til leiks í fyrri hálfleik sem einkenndist af slöppum sendingum og illa útfærðum skyndisóknum. Sem betur fer vorum við þéttir fyrir í vörn og engin færi komu hjá Úkraínu. Betra lið hefði nýtt sér þetta hjá Íslendingum og refsað okkur.

Við áttum það til að bera of mikla virðingu fyrir Úkraínu í dag og leyfðum þeim að halda boltanum í rólegheitum þegar við áttum að vera pressa þá. Eins og sást þegar við fórum að pressa þá áttu þeir erfitt með að skila góðum sendingum frá sér.

Við vorum ekki að nýta góð færi í dag og hefðum getað unnið stærra. Þó ber að nefna að sigur á Úkraínu er ávallt það sem skal stefna að ekki stærð sigursins.

Við vorum ekki að tala nógu vel saman í dag og kom það ansi oft fyrir að þegar við fengum boltann þá var honum sparkað fram þrátt fyrir mikið pláss til að snúa eða leggja á næsta mann.

Ekki ætla ég að gefa Íslendingum fleiri mínusa enda enn og aftur frábær dagur í okkar ört stækkandi sögu.


desktop