Plús og mínus – Snúningur Björns í heimsklassa

Ísland vann 0-2 sigur á Kína á æfingamóti sem fram fer þar í landi þessa dagana en auk Íslands og Kína eru Króatía og Síle á mótinu.

Ísland mun spila til úrslita í China Cup en það kemur í ljós á morgun hvort það verði Síle eða Króatía sem verða andstæðingur Íslands á sunnudag.

Kjartan Henry Finnbogason skoraði fyrra mark leiksins í dag en það kom á 64 mínútu eftir geggjuð tilþrif frá Birni Daníel Sverisssyni.

Það var svo varamaðurinn Aron Sigurðarson sem bætti við þegar lítið var eftir.

Óttar Magnús Karlsson, Albert Guðmundsson, Orri Sigurður Ómarsson og Böðvar Böðvarsson léku sinn fyrsta landsleik en allir komu inn sem varamenn.

Plús og mínus er hér að neðan.

Plús:

Snúningurinn frá Birni Daníeli í marki Kjartans Henry var í heimsklassa, Björn hefur ótrúlegt magn af hæfileikum.

Kjartan Henry var ekki búinn að vera lengi inn á vellinum þegar hann kom boltanum í markið, fæddur markaskorari þessi drengur.

Það var jákvætt að sjá Böðvar Böðvarsson í sínum fyrsta landsleik, með hæfileikana til að verða framtíðar bakvörður í landsliðinu.

Guðlaugur Victor Pálsson sýndi að hann gæti nýst landsliðinu vel þegar meiðsli verða á miðjunni, góður að stilla jafnvægi milli varnar og sóknar.

Aron Sigurðarson er með flotta tölfræði, tveir landsleikir og tvö mörk.

Mínus:

Íslenska liðið fékk á sig of mörg færi í fyrri hálfleik þegar boltinn var að tapast illa, eðliilegur hlutur þegar leikmenn eru ekki vanir að spila saman.

Fleiri leikmenn hefðu mátt sýna sínar bestu hliðar til að búa til meiri breidd þegar alvöru landsleikir eru framundan.


desktop