Barcelona Evrópumeistari eftir sigur á Juventus

Juventus 1-3 Barcelona
0-1 Ivan Rakitic(4′)
1-1 Alvaro Morata(55′)
1-2 Luis Suarez(68′)
1-3 Neymar(96′)

Það var boðið upp á veislu í kvöld í Meistaradeild Evrópu en Juventus og Barcelona áttust þá við í sjálfum úrslitaleiknum.

Um var að ræða Spánarmeistarana og Ítalíumeistarana en leikurinn fór fram í Berlín í Þýskalandi.

Það var ljóst alveg frá fyrstu mínútu að leikurinn yrði fjörugur en það voru Spánverjarnir sem byrjuðu betur og skoruðu snemma leiks.

Þar var að verki Króatinn Ivan Rakitic en hann skoraði eftir laglegt samspil leikmanna Barcelona strax á fjórðu mínútu.

Staðan var 1-0 fyrir Barcelona í hálfleik en snemma í þeim síðari jafnaði Alvaro Morata metin fyrir Juventus.

Þessi fyrrum framherji Real Madrid fylgdi þá á eftir skoti Carlos Tevez og fagnaði markinu innilega.

Juventus var mun sterkari aðilinn eftir mark Morata og virtist líklegri aðilinn til að komast yfir í leiknum.

Það var hins vegar Barcelona sem skoraði næsta markið en það kom gegn gangi leiksins en Luis Suarez skoraði eftir laglega skyndisókn.

Lionel Messi brunaði upp völlinn og átti skot sem Gianluigi Buffon varði vel en Suarez fylgdi á eftir og kom boltanum í netið.

Neymar kláraði svo leikinn fyrir Barcelona í uppbótartíma og lokastaðan 3-1. Barcelona er því Evrópumeistari árið 2015.

 


desktop