Conte: Ungu leikmennirnir þurfa að vita að ég treysti þeim

Chelsea tók á móti Qarabag í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 6-0 sigri heimamanna.

Pedro Rodriguez og Davide Zappacosta skoruðu fyrir Chelsea í fyrri hálfleik og staðan því 2-0 í hálfleik.

Cesar Azpilicueta, Tiemoue Bakayoko og Michy Batshuayi skoruðu svo fyrir Chelsea í þeim síðari áður en Maksim Medvedev fékk skráð á sig sjálfsmark undir lok leiksins og lokatölur því 6-0 fyrir Chelsea.

Antonio Conte, stjóri Chelsea var að vonum sáttur með sína menn eftir sigurinn í kvöld.

„Þetta voru góð úrslit fyrir okkur. Við byrjuðum keppnina á réttu nótunun. Leikmennirnir lögðu sig allan fram og voru einbeittir frá fyrstu mínútu. Þetta var frábær frammistaða hjá liðinu.“

„Það er fullt af jákvæðum hlutum sem ég get tekið út úr þessu. Davide Zappacosta spilaði mjög vel og Eden Hazard er að reyna finna sitt besta form á nýjan leik.“

„Það er mikilvægt að gefa ungum strákum tækifæri eins og Andreas Christiansen. Þeir þurfa að vita og skilja það að ég treysti þeim. Ég er með 18 leikmenn í hóp og þeir eiga allir möguleika á því að spila.“


desktop