Jurgen Klopp: Hélt að fyrirgjafir Robertson væru týndar í Skotlandi

Porto tók á móti Liverpool í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 5-0 sigri gestanna.

Það voru þeir Sadio Mane, Mohamed Salah og Roberto Firmino sem skoruðu mörk Liverpool í kvöld en Mane skoraði þrennu í leiknum.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool var að vonum afar sáttur með sína menn í kvöld sem eru svo gott sem komnir áfram í 8-liða úrslitin.

„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. Við vorum mjög agaðir og skynsamir. Sóttum vel, vörðumst vel og hreyfðum boltann vel á milli manna,“ sagði Klopp.

„Við lögðum mikið á okkur í leiknum en þegar allt kemur til alls þá uppskárum við eins og við sáðum. Ég sagði strákunum að halda áfram að pressa á þá í síðari hálfleik og þeir gerðu það mjög vel.“

„Það voru margir leikmenn að spila frábærlega í kvöld. Loksins fann Robertson fyrirgjafirnar sínar og hann var frábær. Ég hélt á tímabili að þær væru týndar í Skotlandi.“

„Mane var magnaður og vinnslan í Firmino var til fyrirmyndar enn og aftur,“ sagði Klopp að lokum.


desktop